Veigamikil samfélagsleg verkefni
KSÍ starfar að ýmsum grasrótarverkefnum og samfélagslegum verkefnum á ári hverju.
Stærsta grasrótarverkefni síðasta árs var verkefnið Komdu í fótbolta með Mola og var þetta fimmta sumarið í röð sem Siguróli Kristjánsson, betur þekktur sem Moli, ferðaðist um landið og heimsótti minni sveitarfélög. Verkefnið stóð yfir frá maí til september og heimsótti Moli 62 staði og hitti þar um 1700 börn. Komdu í fótbolta með Mola er nú á sínu sjötta sumri og er í fullum gangi.
Verkefnið Verndarar barna, samstarfsverkefni KSÍ og Barnaheilla – Save the Children, fór af stað í sitt annað ár haustið 2023. Verkefnið er samstarfsverkefni til tveggja ára þar sem markmiðið er að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, læra að þekkja einkenni ofbeldis og hvernig bregðast skal við. Sérfræðingur frá Barnaheillum heimsækir knattspyrnufélög um allt land og heldur námskeið í verndun barna, félögunum að kostnaðarlausu. Á vormánuðum var ákveðið að halda verkefninu áfram út árið 2024.
Tæklum tilfinningar er samstarfsverkefni KSÍ og Bergsins Headspace. Um er að ræða tvíþætt verkefni, annars vegar þar sem aðildarfélögum KSÍ býðst að fá fræðsluerindi frá Berginu fyrir unga þátttakendur (leikmenn, þjálfara eða dómara), og hins vegar þar sem ungmennum hjá aðildarfélögum KSÍ stendur til boða að koma í einstaklingsviðtal hjá Berginu. Verkefnið, sem miðast við 2. aldursflokk og er til eins árs, hefst sumarið 2024 og stendur til sumars 2025.
KSÍ, Blindrafélagið og Samtök íþróttafréttamanna starfa saman vegna Sjónlýsingar á A landsleikjum Íslands í fótbolta. Samningurinn felur í sér að félagsmenn Blindrafélagsins geta sótt um þjónustuna á öllum landsleikjum á Laugardalsvelli hjá A landsliðum karla og kvenna í fótbolta og er leikjunum lýst af reyndum íþróttafréttamönnum. Fyrsta sjónlýsingin á knattspyrnuleik á Íslandi fór fram þann 17. júní 2023 þegar A landslið karla tók á móti Slóvakíu í undankeppni EM 2024. Sjónlýsingin var í boði á öllum leikjum A landsliðanna haustið 2023 og er í boði á öllum leikjum ársins 2024. Margir tugir félagsmanna Blindrafélagsins hafa nýtt sér þjónustuna.
KSÍ og sprotafyrirtækið SoGreen gerðu á sínum tíma samning til fimm ára þess efnis að KSÍ kaupi kolefniseiningar af SoGreen. Fyrsta verkefni SoGreen hófst í janúar 2023, í samstarfi við hjálparsamtökin FAWE í Sambíu, og felur í sér að tryggja um 200 stúlkum í Monze-héraði fulla fimm ára gagnfræðiskólamenntun. Kolefniseiningarnar myndast við þá forðun í losun gróðurhúsalofttegunda sem verður þegar stúlkum er tryggð menntun, en menntun er ein áhrifaríkasta leiðin til þess að fyrirbyggja barnahjónabönd og þungun táningsstúlkna sem knýja mikinn hraða fólksfjölgunar í fátækum samfélögum í framlínunni í baráttunni við loftslagsvána. Á vormánuðum 2024 gaf SoGreen út sína fyrstu framgangsskýrslu þar sem stiklað er á stóru um verkefnið, markmiðin og árangurinn. Þar kemur m.a. fram að 180 stúlkur hafi verið innritaðar í skóla í upphafi skólaársins 2023, að 92 stúlkur til viðbótar hafi verið innritaðar í skóla við upphaf skólaársins 2024, og að 200 stúlkur hafi fengið fræðslu um loftslagsbreytingar og helstu leiðir fyrir samfélög þeirra að verjast og aðlagast þeim.
Grasrótarverkefni og samfélagsleg verkefni eru unnin þvert á alla starfsemi KSÍ. Hægt er að sækja um samstarf við KSÍ um samfélagsleg verkefni, sjá nánar hér.