• mið. 26. jún. 2024
  • Mótamál

Línur að skýrast?

Knattspyrnumót sumarsins eru í fullum gangi og línur mögulega þegar farnar að skýrast að einhverju leyti.  

Komið er að undanúrslitum í Mjólkurbikarnum bæði kvenna- og karlamegin.  Undanúrslitaleikir Mjólkurbikars kvenna fara reyndar fram í vikunni, en undanúrslitaleikir Mjólkurbikars karla eru í byrjun júlí.  Þá er auðvitað bikarkeppni neðri deilda karla, Fótbolti.net bikarinn, í fullum gangi og 16-liða úrslitin þar verða leikin um miðjan júlí.

Í Bestu deild kvenna er að koma kunnugleg mynd á toppbaráttuna þar sem Breiðablik og Valur eru jöfn að stigum í efstu tveimur sætunum eftir tíu leiki.  Í Bestu deild karla eru örfá stig sem skilja að þrjú efstu liðin - Víking, Breiðablik og Val, sem öll hafa lokið tólf leikjum.

Njarðvík hefur farið vel af stað í Lengjudeild karla og er á toppnum þar, en Fjölnir og IBV eru ekki langt undan.  Raunar munar aðeins fimm stigum á Aftureldingu í 4. sæti og þremur neðstu liðunum þegar þetta er ritað (heil umferð í dag, miðvikudag).  Í Lengjudeild kvenna er FHL á toppnum sem stendur en HK, Afturelding og fleiri lið eru þar á eftir og ljóst að spennandi barátta er framundan.

Ljóst er að keppni í 2. deild kvenna verður spennandi í allt sumar og mörg lið hafa safnað stigum.  Haukar eru þar í efsta sæti með 19 stig og fimm önnur lið eru þegar komin í tveggja stafa tölu. Selfyssingar eru efstir í 2. deild karla, einu stigi á undan Víkingi Ólafsvík, en aðeins 6 stig skilja að þriðja sætið og það níunda.

Þriðja deild karla virðist vera skipt í miðju - 6 lið gera atlögu að efri hlutanum og 6 keppast við að falla ekki, en enn er nóg eftir af mótinu og staðan getur breyst.  

Í 4. deild karla hefur Ýmir tekið afgerandi forystu en ljóst að Hamar og fleiri lið ætla sér að gera atlögu að efstu tveimur sætunum. 

Toppbarátta beggja riðla í 5. deild karla verður spennandi allt til loka, svo mikið er ljóst, enda þéttur stigapakki í boði í báðum riðlum og mörg lið að safna vel.

Öll mót sumarsins má sjá hér á vef KSÍ, í valmyndinni undir "Mót" hér að ofan.

Mynd með grein:  Mummi Lú.