• mið. 29. maí 2024
  • Leyfiskerfi

Leyfiskerfið 20 ára

Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) fjallar um það í grein á vef sínum að leyfiskerfi UEFA fagni 20 ára afmæli á þessu ári. Markmið leyfiskerfisins er að bæta knattspyrnuíþróttina á öllum sviðum og mæta þeim stöðugt vaxandi kröfum og væntingum sem gerðar eru til knattspyrnusambanda og knattspyrnufélaga, og koma frá stuðningsmönnum, félagsmönnum, leikmönnum, þjálfurum, styrktaraðilum, fjölmiðlum, almenningi og yfirvöldum ríkis og sveitarfélaga, kröfur sem eru ekki lengur eingöngu íþróttalegs eðlis. Starfsemi félaga í fremstu röð knattspyrnunnar líkist æ meir þjónustu fyrirtækis.

Skoða umfjöllun UEFA um 20 ára afmæli leyfiskerfisins

UEFA ákvað að öll félög sem taka þátt í Evrópukeppni frá og með haustinu 2004 skyldu hafa útgefið leyfi frá knattspyrnusambandi sínu. Í kerfinu verða félög að mæta lágmarkskröfum UEFA og knattspyrnusambands þess lands sem viðkomandi félag leikur í.  KSÍ tók upp leyfiskerfi hérlendis haustið 2003 og voru fyrstu þátttökuleyfin gefin út fyrir keppnistímabilið 2004.  Margt hefur gerst síðan þá og leyfiskerfið þróast mikið, bæði leyfiskerfi KSÍ og leyfiskerfi UEFA.  Í dag undirgangast félög í efstu tveimur deildum karla og efstu deild kvenna á Íslandi leyfiskerfi KSÍ og þau félög sem leika í Evrópukeppnum þurfa jafnframt að uppfylla kröfur leyfiskerfis UEFA.

Um leyfiskerfi KSÍ

Mynd með grein:  Mummi Lú.