Víkingur R. sigurvegari í Meistarakeppni KSÍ kvenna
Víkingur R. er meistari meistaranna eftir sigur gegn Val í Meistarakeppni KSÍ kvenna.
Víkingur komst yfir á 6. mínútu með marki frá Sigdísi Evu Bárðardóttur. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og ríkjandi bikarmeistarar fóru því með eins marks forystu inn í hálfleik.
Á 52. mínútu jafnaði Valur metin. Amanda Jacobsen Andradóttir tók aukaspyrnu fyrir utan vítateig Víkings og skoraði beint úr spyrnunni. Hvorugt lið náði að koma inn sigurmarki í venjulegum leiktíma og því var farið beint í vítaspyrnukeppni.
Í vítakeppninni var allt jafnt en svo var það Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir, markmaður Víkings, sem varði eina spyrnu Vals og Víkingur fagnaði fyrsta titli sumarsins.
Víkingur er nýliði í Bestu-deildinni og byrjar sumarið því vel fyrir þær. Til hamingju Víkingur!
Mynd: Hulda Margrét