COMET: Nýtt móta- og upplýsingakerfi KSÍ
KSÍ hefur samið við Analyticom um innleiðingu á nýju móta- og upplýsingakerfi fyrir mótahald og aðra starfsemi sambandsins. Kerfið sem um ræðir heitir COMET (Competition Management Expert System) og er notað af 43 knattspyrnusamböndum víðs vegar um heiminn. Fjögur álfusambönd nota einnig COMET auk beinna og virkra tenginga COMET við kerfi og gagnagrunna Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) og Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA).
Vinna við þarfagreiningu og undirbúning hefur staðið yfir um nokkurra ára skeið og nokkrar lausnir skoðaðar. Ákvörðun um innleiðingu COMET liggur nú endanlega fyrir, samningur við Analyticom hefur verið undirritaður, og undirbúningur innleiðingar er formlega hafinn ásamt samhliða innleiðingu á nýrri vefsíðu KSÍ. Áætlað er að innleiðingu ljúki haustið 2025 og verða því m.a. mót ársins 2026 skipulögð í gegnum COMET, sem tekur þá við af núverandi Mótakerfi KSÍ, sem var sérsmíðað fyrir KSÍ á sínum tíma, tekið í notkun 2001, endurbætt og þróað reglulega, og hefur þjónað KSÍ með sóma í gegnum árin.
COMET mun halda utan um alla helstu þætti í starfsemi KSÍ og þar eru verkþættir sem snúa að mótamálum veigamestir (niðurröðun móta og dómara, agamál, mannvirkjamál, félagaskipti, leikmannasamningar, leyfiskerfi, skráning iðkenda og annarra þátttakenda, o.fl.), en einnig verkþættir sem snúa að fræðslumálum og þjálfaramenntun, landsleikjum og landsliðum, greiningu og vinnslu gagna, samskiptum, svo eitthvað sé nefnt.
Þessu til viðbótar má nefna að COMET fylgja þrjú smáforrit (öpp) og mun KSÍ innleiða tvö þeirra. Annað smáforritið (COMET Football) er einfaldlega framlenging á stýrikerfi COMET með öllum helstu aðgerðum notenda, m.a. er hægt að skrá leikskýrslur og atvik leiks í gegnum appið. Hitt smáforritið (COMET Live) er fyrir alla þá sem vilja fylgjast með mótum í öllum aldursflokkum, félögum, liðum og leikmönnum (kemur m.a. í stað "Mín lið" á vef KSÍ).
Innleiðing COMET mun gerbreyta mörgu sem snýr að innra starfi KSÍ og ekki síður því sem snýr að notendum vefsins (starfsfólk félaga, dómarar, þjálfarar, og aðrir), sem munu þannig hafa beinan aðgang að COMET til ýmissa aðgerða (leikskýrsluskráning, leikjabreytingar, úttektir leikvanga, gagnaskil í leyfiskerfi, o.fl. samkvæmt viðeigandi aðgangsstýringu). Aðgangur að COMET kemur þannig í stað aðgangs að innri vef KSÍ.
KSÍ bindur miklar vonir við COMET og hlakkar til samstarfsins við Analyticom og þeirra verkefna sem eru framundan.