Fræðslukvöld SKORA 10. apríl í samstarfi við KSÍ
KSÍ vekur athygli á fræðsluviðburði á vegum Háskóla Íslands sem fram fer í höfuðstöðvum KSÍ á 3ju hæð, miðvikudaginn 10. apríl kl. 19:30.
Fræðslukvöld SKORA í samstarfi við KSÍ
Síðustu áratugi hefur kvenkyns iðkendum fjölgað gríðarlega í heimi íþróttanna og mikill uppgangur er í kvennaknattspyrnu. Þessi aukning hefur hvatt til frekari rannsókna um frammistöðufærni kvenna en rannsóknir hérlendis og erlendis hafa nánast eingöngu einblínt á afkastagetu karla í knattspyrnu.
Stúlkur, Knattspyrna og Rannsókn á Atgervi (SKORA) er rannsókn framkvæmd af hópi vísindafólks frá Háskóla Íslands í samvinnu við rannsakendur í Noregi og Svíþjóð. Markmið rannsóknarinnar er að skoða líkamlegt atgervi knattspyrnustúlkna, andlega og félagslega líðan, áhrif tíðahrings á tíðni meiðsla og brottfall stúlkna úr knattspyrnu á Íslandi.
Í rannsókninni verða framkvæmdar ýmsar mælingar á þreki, snerpu, hraða, krafti og færni. Sérstök áhersla verður lögð á að skoða líkamssamsetningu, kynþroska, beinþroska stúlkna og brottfall stúlkna úr knattspyrnu. Þessir þættir verða einnig tengdir við andlega líðan (frammistöðukvíða, sjálfsímynd og fl.), líkamlega heilsu, þjálfun og aðra lífstílsþætti sem verða skoðaðir með spurningalista.
Í tilefni af þessu verkefni hefur SKORA í samstarfi við KSÍ ákveðið að halda fræðslukvöld miðvikudaginn 10. apríl kl: 19:30 á 3. hæð í höfuðstöðvum KSÍ, Laugardalsvelli.
Dagskrá kvöldsins:
- 19:30 SKORA verkefnið og heimasíðan formlega opnuð – Dr. Vaka Rögnvaldsdóttir og Dr. Rúna Sif Stefánsdóttir lektorar í íþrótta- og heilsufræði, HÍ og verkefnastjórar rannsóknarinnar.
- 19:45 Líkamleg þjálfun – Hildur Kristín Sveinsdóttir, BSc sjúkraþjálfun
- 20:00 Hugræn þjálfun í íþróttum - Helgi Valur Pálsson MSc Íþróttasálfræði
- 20:15 Spurningar og spjall
- 20:30 Formlegri dagskrá lokið
VERIÐ ÖLL VELKOMIN!
Athugið að fræðslukvöldið verður tekið upp og sett á heimasíðu SKORA verkefnisins – skora.hi.is fyrir áhugasama!