Góður sigur hjá U19 kvenna gegn Króatíu
U19 ára landslið kvenna vann góðan 3-1 sigur gegn Króatíu í öðrum leik sínum í undankeppni EM 2024.
Mörk Íslands skoruðu þær Katla Tryggvadóttir, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Emelía Óskarsdóttir.
Króatía var manni færri frá 35. mínútu þegar leikmaður þeirra fékk að líta rauða spjaldið. Á 90. mínútu leiksins fékk annar leikmaður þeirra einnig að líta rauða spjaldið.
Var þetta annar leikur liðsins af þremur í undankeppninni og eru stelpurnar í þriðja og næstneðsta sæti riðilsins þegar einn leikur er eftir. Írland er með fullt hús stiga á toppi riðilsins, Austurríki og Ísland eru með þrjú stig og Króatía á botninum án stiga.
Lokaleikur Íslands verður á þriðjudaginn klukkan 10:30 gegn Austurríki. Ísland þarf að vinna sigur í leiknum til að eiga möguleika á efsta sæti riðilsins sem gefur sæti í lokakeppni EM. Á sama tíma þarf Írland að tapa fyrir Króatíu.