Dómur áfrýjunardómstóls í máli Afríku
Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur kveðið upp dóm í máli 1/2024, framkvæmdastjóri KSÍ gegn Knattspyrnufélaginu Afríku. Hefur áfrýjunardómstóll KSÍ dæmt Knattspyrnufélaginu Afríku til greiðslu sektar að upphæð kr. 25.000,-.
Hinn áfrýjaði úrskurður aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, var kveðinn upp þann 19. janúar 2024, þar sem knattspyrnufélaginu Afríku var gert að sæta sekt að upphæð kr. 50.000,-. Áfrýjun úrskurðar aga- og úrskurðarnefndar barst skrifstofu KSÍ þann 24. janúar 2024 þar sem Afríka gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Í niðurstöðukafla dómsins segir m.a.:
„Dómurinn tekur undir forsendur í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar um að ágreiningslaust sé að Stefán Karl Arnarsson, sem skráður var á leikskýrslu meðal varamanna Afríku í leik liðsins gegn Smára þann 3. ágúst 2023 hafi ekki tekið þátt í umræddum leik. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að lið Afríku hafi verið ranglega fyllt út á leikskýrslu leiksins. Einnig tekur dómurinn undir það sjónarmið að ekki séu fullnægjandi líkur á að áfrýjandi hafi sýnt af sér vísvitandi verknað þegar umrædd leikskýrsla var fyllt út í skilningi greinar 36.3. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót. Þykir dómnum að framburður frá dómara leiksins og frásögn í greinargerð áfrýjanda renni stoðum undir þá niðurstöðu.“