Grasrótarpersóna KSÍ 2023 er Joaquín Linares Cordoba
Grasrótarverðlaunum KSÍ er skipt upp í þrjá flokka: Grasrótarverkefni ársins, Grasrótarfélag ársins og Grasrótarpersóna ársins. Þetta er í annað sinn sem verðlaunum er þrískipt með þessum hætti.
Mjög ánægjulegt var að sjá hversu margar flottar tilnefningar bárust í öllum þremur flokkunum í ár og greinilegt að grasrótarstarf í fótbolta er í miklum blóma víðs vegar um land. Það var verðugt verkefni að velja úr og margar tilnefningar komu til greina.
Grasrótarpersóna KSÍ árið 2023 er Joaquín Linares Cordoba og hlýtur hann nafnbótina fyrir störf sín hjá Knattspyrnufélaginu Miðbæ (KM)
Í Knattspyrnufélaginu Miðbæ (KM) sameinast fólk úr ýmsum áttum og af ýmsum þjóðernum í ástríðu fyrir fótbolta. Maðurinn á bak við KM er Joaquín Linares Cordoba. Í umsögn með tilnefningunni segir meðal annars: Það hefur verið mjög fallegt að fylgjast með þessu félagi og óeigingjörnu starfi Joaquíns í þess þágu síðastliðinn áratug. Leikmenn liðsins eru af fjölmörgum þjóðernum og eru allir velkomnir. Íslendingar, aðfluttir, flóttamenn, hælisleitendur - eiga þennan vettvang þar sem allir eru jafnir og spila saman fótbolta.
Á myndinni er Joaquín Linares Cordoba ásamt Sóleyju Guðmundsdóttur frá KSÍ