Vill barnið þitt vera lukkukrakki á Ísland - Serbía?
Á leik A landsliðs kvenna gegn Serbíu sem fram fer á Kópavogsvelli 27. febrúar klukkan 14:30 geta öll börn sem vilja sóst eftir því að vera lukkukrakkar. Hlutverk lukkukrakka er að leiða leikmenn beggja liða inn á völlinn og standa með þeim á meðan þjóðsöngvar eru spilaðir.
Lukkurakkar þurfa að vera undir 140 cm á hæð og á aldrinum 6-10 ára. Krakkarnir fá bláan Puma bol sem verður sérmerktur leiknum til að labba í inn á völlinn og er í boði að kaupa bolinn á kostnaðarverði, 4.800 krónur. Gert er ráð fyrir að lukkukrakkar verði í sínum eigin fatnaði undir bolnum (helst bláum) og eigin síðbuxum (helst svörtum). Kaupa þarf miða fyrir foreldra/forráðamenn á leikinn. Hægt er að kaupa miða fyrir allt að þrjá fylgdarmenn og kostar miðinn á leik Íslands og Serbíu 2.500 krónur.
Mikilvægt að hafa í huga:
- Lukkukrakkar verða að vera mættir 45 mínútum fyrir áætlaðan leiktíma á leikvöllinn.
- Lukkukrakkar eiga að vera í strigaskóm þegar þeir ganga inn á völlinn, alls ekki takkaskóm.
- Foreldri/forráðamaður sem fylgir lukkukrakka aðstoðar við að klæða í búning.
- Foreldri/forráðamaður fer svo upp í stúku þar sem hægt er að horfa á inngönguna fyrir leikinn.
- Lukkukrökkum er fylgt upp í stúku eftir athöfnina.
- Starfsmaður KSÍ mun raða lukkukrökkum niður á leikmenn og sjá til þess að allir hafi gaman af.
Ef skráningar verða fleiri en fjöldi lukkukrakka verður dregið úr skráningum.
Smellið hér til að skrá lukkukrakka á Ísland-Serbía.
Mynd: Mummi Lú