Félög hvött til að huga að kynjaskiptingu við val á þingfulltrúum
Frá stjórn KSÍ:
Á ársþingi KSÍ 2022 sem fram fór að Ásvöllum í Hafnarfirði voru konur 20% þingfulltrúa, og á þinginu á Ísafirði 2023 var hlutfallið 28%. Tvö ár í röð var því veruleg fjölgun kvenna sem voru þingfulltrúar og eiga aðildarfélög KSÍ hrós skilið fyrir það.
Í átaksverkefni KSÍ "Konur í fótbolta" sem hófst fyrir tveimur árum kom fram að þriðjungur skráðra knattspyrnuiðkenda (leikmanna) á Íslandi er kvenkyns, en þegar kemur að öðrum hlutverkum í knattspyrnuhreyfingunni er hlutfall kvenna mun lægra. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá að kvenkyns þingfulltrúum á knattspyrnuþingum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu árin eftir árlega hvatningu frá forystu KSÍ til aðildarfélaga um að huga að kynjaskiptingu sinna fulltrúa á ársþingum.
Stjórn KSÍ hvetur því aðildarfélög til að huga áfram vel og vandlega að kynjaskiptingu við val á þingfulltrúum fyrir 78. ársþing KSÍ, sem fram fer þann 24. febrúar næstkomandi í íþróttamiðstöð Fram í Úlfarsárdal, Reykjavík. Þetta skiptir verulegu máli fyrir knattspyrnuhreyfinguna okkar.
Mynd með grein: Hulda Margrét.