• fim. 25. jan. 2024
  • Dómaramál

Metár í fjölda dómarastarfa

Árið 2023 er metár þegar kemur að mönnun dómarastarfa á KSÍ leiki. Fjöldi starfa þar sem KSÍ sá um að tilnefna dómara á leiki á síðasta ári var alls 5.305, sem er talsverð aukning milli ára og þegar horft er lengra aftur í tímann má berlega sjá hversu mikil aukningin er. Sem dæmi um leikjamagn má nefna að algengt er að skrifstofa KSÍ raði dómurum á jafnvel hundruðir starfa í sömu viku.

Ofan á þetta bætist síðan gífurlega mikil mönnun leikja sem félögin sjálf bera ábyrgð á, mörg þúsund leikir yfir árið. KSÍ skipuleggur knattspyrnumót allan ársins hring, þó meginþorri leikjanna fari fram yfir sumartímann, og hvað niðurröðun dómara varðar þá eru júlí og ágúst sérstaklega krefjandi vegna sumarleyfa dómara.

Fjöldi dómarastarfa þar sem KSÍ raðar dómurum

2023

5.305

2022

5.040

2021

4.964

2020

4.042

2019

4.651

2018

4.592

2017

4.785

2016

4.423

2015

4.735

2014

4.465

2013

4.431

2006

2.259

 

KSÍ býður aðildarfélögum upp á þann möguleika að bóka dómaranámskeið frá KSÍ sem haldin eru hjá félögunum. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og fjöldi nýrra dómara útskrifast sem unglingadómarar á ári hverju. Það er greinilegt að það vantar dómara í störf hjá félögunum og hafa mörg félög bókað námskeið á fyrstu mánuðum ársins 2024. Námskeiðin eru stutt en hnitmiðuð og markmiðið með þeim er fyrst og fremst að hjálpa félögunum að búa til dómarahópa til þess að manna þá fjölmörgu leiki sem eru á þeirra ábyrgð.

Viltu verða dómari? Hafðu endilega samband við þitt félag eða við KSÍ. Dómaranámskeið KSÍ eru auglýst hér.

Verkefni tengd dómaramálum eru unnin að mestu á innanlandssviði á skrifstofu KSÍ. Á innanlandssviði eru 8 starfsmenn og á meðal verkefna eru niðurröðun leikja og móta, dómaramál, leyfiskerfi, mannvirkjamál, heilindamál, félagaskipti og leikmannasamningar, aga- og kærumál, og málefni umboðsmanna.

Mynd:Mummi Lú