Framlag frá UEFA og KSÍ til íslenskra félagsliða 2023
Mynd - Mummi Lú
Síðastliðin ár hefur UEFA greitt félögum í Bestu deild karla sérstakt framlag vegna þróunarstarfs barna og unglinga í knattspyrnu (Clubs Youth Development) og er þetta framlag hluti af þeim tekjum sem UEFA hefur af Meistaradeild UEFA (UEFA Champions League).
UEFA greiðir nú í annað sinn framlag til félaga í efstu deild kvenna vegna Meistaradeildar kvenna UEFA (UEFA Women‘s Champions League).
Í fjárhagsáætlun KSÍ fyrir árið 2023 var gert ráð fyrir 50 milljóna króna framlagi til viðbótar við framlag UEFA til þróunarstarfs. Á fundi stjórnar KSÍ þann 10. janúar síðastliðinn var dreifing framlags KSÍ samþykkt og má sjá það í töflu hér að neðan.
Framlag KSÍ til aðildarfélaga sinna skal renna óskipt til eflingar knattspyrnu barna og unglinga frá yngstu iðkendum til og með 2. aldursflokks karla og kvenna. Úthlutun er háð því að félög haldi úti sjálfstæðri starfsemi í yngri flokkum beggja kynja. Félög sem taka þátt í samstarfi í yngri flokkum eða eru ekki með þátttökulið í Íslandsmóti í yngri flokkum beggja kynja fá 75% framlag miðað við deildarstöðu meistaraflokks. Önnur félög, með starfsemi í yngri flokkum, geta sótt um styrk til þróunarstarfs en þurfa að sýna fram á starfsemi sína og skal það gert fyrir 31. janúar 2024.
Rétt er að taka fram að þegar um samstarfsfélög (skástriksfélög) er að ræða þá er framlagið byggt á stöðu í deild skipt á milli þeirra félaga sem að samstarfinu standa.
Eftirfarandi tafla sýnir framlag KSÍ til þróunarstarfs aðildarfélaga KSÍ.