• mið. 10. jan. 2024
  • Landslið

Knattspyrnuvísindin hagnýtt í afreksstarfi

KSÍ hefur sett á laggirnar nýtt verkefni sem heyrir undir Knattspyrnusvið og er ætlað að efla afreksstarf sambandsins enn frekar. Markmiðið er að taka virkan þátt í hraðri þróun knattspyrnunnar hvað varðar hugræna þætti, leikgreiningu og stafræna vinnslu. Þetta verkefni er fjármagnað að fullu af FIFA í gegnum FIFA TDS (Talent Development Scheme), sem var stofnað til að styðja við og stuðla að samkeppnishæfni knattspyrnusambanda og landsliða víðs vegar um heiminn.

KSÍ þakkar FIFA fyrir þennan mikilvæga stuðning við þróun íslenskrar knattspyrnu og væntir mikils af verkefninu, sem felst m.a. í að hagnýta þá þekkingu sem er til staðar og búa til nýja þekkingu í samstarfi við háskólana í landinu til að halda áfram að þróa leikmenn og þjálfara okkar innan vallar jafnt sem utan vallar.

Jörundur Áki Sveinsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs KSÍ:

„Við megum ekki sitja eftir og verðum að fjárfesta í afreksstarfinu, í bættum árangri, afreksverkefnum með tengslum við tækni, rannsóknir og vísindalega vinnu, eins og svo mörg knattspyrnusambönd í Evrópu eru að gera. FIFA styður við þannig verkefni í gegnum FIFA Talent Development Scheme (FIFA TDS) og þetta verkefni KSÍ er fjármagnað að fullu af FIFA TDS. Við höfum lagt grunn að þessu verkefni undanfarin ár með aukningu í fræðslu og stuðningi við leikmenn landsliðanna, leikgreiningu og umgjörð í kringum landsliðin okkar, erum að hagnýta það sem má kalla knattspyrnuvísindi – þekkingu sem verður til í gegnum gagnasöfnun og greiningar. Með þessu skrefi tökum við í raun stökk í að gera gott betra ásamt því að deila meira því sem við erum að gera með félögunum í landinu, enda koma leikmenn landsliðanna frá félögunum og við viljum gera allt sem við getum til að styðja við þau. Betri leikmenn frá félögunum skila sér í betri landsliðum, og betri landslið skila betri árangri til félaganna.“

FIFA TDS og tengingin við Ísland:

„Það er í gegnum afreksstarfið sem Knattspyrnusamband Íslands, í samstarfi við FIFA, leggur grunn að framtíð þar sem leikmenn hafa ekki einungis metnað til að leika fyrir Íslands hönd, heldur taka einnig virkan þátt í því að móta landslag íslenskrar knattspyrnu“.