Stórt tap gegn Austurríki
U20 lið kvenna tapaði 6-0 fyrir Austurríki á Spáni í dag, mánudag. Leikurinn hafði mikið vægi því sigurvegarinn tryggði sér sæti á HM U20 næsta sumar.
Austurrísku stelpurnar voru of stór biti fyrir þær íslensku. Fyrsta mark leiksins kom strax á 10. mínútu og það næsta á 22. mínútu.
Á 43. mínútu fékk Eyrún Embla Hjartardóttir rautt spjald fyrir brot á leikmanni sem var að sleppa ein í gegn. Dæmd var aukaspyrna rétt fyrir utan teig og skoraði Nicole Ojukwu beint úr aukaspyrnunni og var þetta hennar þriðja mark í leiknum. Aðeins mínútu síðar fékk Austurríki vítaspyrnu sem þær skoruðu örugglega úr. Staðan 4-0 þegar flautað var til hálfleiks.
Ísland mætti einum manni færri til leiks í síðari hálfleik. Það var þó allt annar bragur á liðinu og ætluðu stelpurnar að sýna hvað í þeim býr. Fimmta mark leiksins kom ekki fyrr en á 70. mínútu og það sjötta á 87. mínútu.
Draumurinn um HM er úti en stelpurnar mega vera sáttar með árið þar sem þær tóku meðal annars þátt í lokamóti EM í sumar.