• fös. 01. des. 2023
  • Landslið
  • A kvenna

Mikilvægur sigur gegn Wales

A landslið kvenna vann í kvöld góðan 1-2 sigur gegn Wales í Þjóðadeildinni.

Fyrra mark Íslands skoraði Hildur Antonsdóttir eftir um hálftíma leik. Hildur sjálf vann boltann við vítateig Íslands og kom honum á Karólínu Leu. Sóknin endaði með fyrirgjöf frá Sædísi Rún sem barst til Hlínar áður en Hildur kom boltanum í netið. 

Ísland fór með eins marks forystu inn til hálfleiks. Diljá Ýr Zomers kom inn á á 63. mínútu og skoraði annað mark Íslands á 79. mínútu. Allt stefndi í tveggja marka sigur Íslands en heimakonur klóruðu í bakkann með marki á 94. mínútu.

Með sigrinum tryggði liðið sér sæti í umspili um sæti í A deild Þjóðadeildarinnar. Spilaðir verða tveir leikir, heima og að heiman og verður dregið um mótherja þann 11. desember. Leikirnir fara fram í lok febrúar á næsta ári.