Naumt tap Blika gegn Gent
Breiðablik tapaði 2-3 gegn Gent í fjórða leik liðsins í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA.
Leikurinn fór fram á Laugardalsvelli og komst belgíska liðið strax yfir á 6. mínútu leiksins. Blikar voru ekki lengi að svara fyrir sig, en Jason Daði Svanþórsson skoraði tvö mörk með stuttu millibili. Það fyrra á 16. mínútu og það seinna á 18. mínútu. Glæsilegur kafli hjá Breiðablik. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og Blikar fóru því inn í hálfleikinn með forystuna.
Gent hóf síðari hálfleik vel og jafnaði leikinn á 54. mínútu af vítapunktinum. Það var svo 15 mínútum síðar sem Gent skoraði þriðja mark leiksins og þar við sat. Þrátt fyrir tapið lék Breiðablik frábærlega í leiknum og var óheppið að fá ekkert út úr honum.
Næsti leikur liðsins fer fram 30. nóvember á Laugardalsvelli gegn Maccabi Tel Aviv.