• mið. 01. nóv. 2023
  • Fræðsla

Football & Fun / Wurth mótið haldið 11. nóvember

Alþjóðlega knattspyrnumótið "Football & Fun", sem haldið hefur verið undir fána Würth á Íslandi um margra ára skeið, fer fram í Egilshöll laugardaginn 11. nóvember 2023.

Keppt verður í fjórum flokkum karla (30, 40, 50 og 60+) og tveimur flokkum kvenna (22 og 30+). Mótið stendur yfir frá kl. 9-16 og um kvöldið fer fram glæsilegt lokahóf í Fylkishöll með hátíðarkvöldverði, verðlaunaafhendingu og skemmtun. Á síðasta ári tóku 29 erlend knattspyrnulið frá 11 löndum þátt í mótinu og vonast er eftir álíka fjölda í ár og nokkur hundruð keppendum.

Tæklingar bannaðar

"Það hefur sennilega spurst út að leikmenn oldboys Þróttar eru orðnir tæplega 200 talsins því mótsstjórar hafa nú fengið Þrótt til liðs við sig með formlegum hætti. Við hjálpum til með mótshaldið sjálft og mætum sömuleiðis með alla vega sjö lið til leiks. Svo sjáum við bara hvernig gengur og skoðum framhaldið við mótslok. Þátttökugjald er aðeins níu þúsund krónur á haus, sem er gjöf en ekki gjald þar sem innifalið í því er bæði aðgangur að mótinu og lokahófinu. Þetta eru alltaf frábærir keppnisdagar og vert að minna á að tæklingar eru bannaðar og vinátta algjört skilyrði," segir Guðberg Konráð Jónsson hjá oldboys Þróttar.

Mikilvægar uppskeruhátíðir

Að sögn Guðbergs eru knattspyrnumót af þessu tagi mikilvægar uppskeruhátíðir fyrir oldboysklúbba og boltahópa á öllum aldri. Það er líf og fjör hjá eldri iðkendum og fjöldinn er talsverður. KSÍ hefur verið duglegt að styðja við bakið á þessari lýðheilsuhreyfingu, til dæmis með því að velja oldboys Þróttar sem grasrótarverkefni ársins. "Sum félaganna hafa enn fremur verið dugleg að heimsækja erlenda grundu og þannig fara Þróttarar árlega í miklar reisur til Bretlandseyja og halda þar núna eigið mót með heimafólki. Um er að ræða svonefnt Lava Cup-mót, sem verður haldið í þriðja skipti í maí næstkomandi í Skotlandi og við reiknum með að um 40 til 50 Þróttarar komi með í ferðina."

Þróttur lagði Grænland

"Við tökum sömuleiðis reglulega á móti erlendum knattspyrnuliðum í Laugardalnum. Þannig hafa til dæmis bandarísk, dönsk og skosk lið heimsótt okkur undanfarin ár, að ógleymdum ákveðnum hápunkti þegar að við spiluðum tvívegis við grænlenska kvennalandsliðið fyrir fáeinum árum. Það voru ógleymanlegir leikir, sem unnust naumlega. Það er skemmtilegur kúltúr kringum fótboltaiðkun á efri árum og við höfum tekið eftir því hjá Þrótti að lýðheilsuvinkillinn hefur styrkst mjög eftir að við hófum að bjóða upp á daglegar æfingar fyrir eldri leikmenn. Fjöldinn sprakk hressilega út og við erum fyrir vikið flestir í umtalsvert betra formi en áður," segir Guðberg að endingu.

Football & Fun
Skráning og nánari upplýsingar:
footballandfun.is

Mynd með frétt tekin á Lava Cup