Tveggja marka tap gegn Þýskalandi
A landslið kvenna tapaði með tveimur mörkum gegn Þýskalandi í Þjóðadeild UEFA þegar liðin áttust við á Laugardalsvelli í kvöld, þriðjudagskvöld. Lengi vel leit út fyrir að eina mark leiksins yrði mark Giuliu Gwinn úr vítaspyrnu á 65. mínútu, en Klöru Bühl tókst að bæta við öðru marki með skoti utan teigs í uppbótartíma og lokatölur því 0-2, Þýskalandi í vil.
Íslenska liðið varðist hetjulega allan leikinn gegn ógnarsterku þýsku liði sem sótti án afláts, en Ísland átti engu að síður sínar sóknir. Þjóðverjar hafa náð sér vel á strik í Þjóðadeildinni eftir tap gegn Dönum í fyrstu umferð og ljóst að þessi tvö lið há einvígi um efsta sætið, en þau mætast einmitt í næstu umferð, sem verður leikin 1. desember. Sama dag mætast Wales og Ísland í Cardiff í algjörum lykilleik í baráttunni um að halda sætinu í efstu deild Þjóðadeildarinnar. Lokaumferðin verður síðan leikin 5. desember og þá mætir Ísland Danmörku ytra.
Mynd með grein: Hulda Margrét.