Úrslit í leik Kormáks/Hvatar og Árbæjar standa óhögguð
Aga- og úrskurðarnefnd hefur kveðið upp úrskurð í máli nr. 19/2023 - Árbær gegn Kormáki/Hvöt og kveðið upp þann úrskurð að úrslit leiks liðanna, sem fram fór þann 2. september síðastliðinn, skuli standa óhögguð.
Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir m.a.:
„Í greinargerð kærða er til þess vísað að upp hafi komið tæknilegt vandamál á innri vef kærða á vef KSÍ við skráningu eins leikmanns á leikskýrslu, Aco Pandurevic, í leik Kormáks/Hvatar og Árbæjar þann 2. september sl. Vandamálið hafi lýst sér þannig að ekki hafi reynst unnt að skrá leikmanninn á rafrænt eintak leikskýrslu, sama hvað reynt var. Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting frá dómara leiksins, Gunnari Oddi Hafliðasyni, að honum hafi verið gert viðvart um umrætt vandamál. Staðfestir dómari jafnframt að vandamál hafi verið á innri vef KSÍ og ekki hafi verið hægt að setja leikmanninn á rafrænt eintak leikskýrslu vegna tæknilegra vandamála. Nafn leikmannsins, Aco Pandurevic, og kennitala hafi því verið handskrifað á útprentað eintak leikskýrslunnar.
Að mati nefndarinnar verður ekki séð af gögnum málsins að um hafi verið að ræða breytingu á leikskýrslu af hálfu Kormáks/Hvatar, er Aco Pandurevic var færður inn á útprentaða leikskýrslu í aðdraganda leik liðsins við Árbæ í 3. deild karla. Lítur nefndin svo á upp hafi komið tæknilegt vandamál við skráningu á rafrænni leikskýrslu á innri vef KSÍ sem gerði það að verkum að Aco Pandurevic, leikmaður Kormáks/Hvatar, gat ekki verið skráður þar á meðal varamanna. Dómara var tilkynnt um vandamál vegna leikskýrsluskráningar og hafi hann heimilað liði Kormáks/Hvatar að handskrifa nafn Aco Pandurevic á útprentað og undirritað eintak af leikskýrslu.
Í Handbók leikja 2023, sem samþykkt var af stjórn KSÍ í samræmi við fyrrnefnda grein 1.4., er fjallað um skráningu úrslita og leikskýrslu. Ekki verður séð að Kormákur/Hvöt hafi neinn hátt gerst brotlegt við ákvæði handbókar leikja um skráningu úrslita og leikskýrslu. Tæknilegt vandamál hafi komið í veg fyrir að einn leikmaður Kormáks/Hvatar hafi ekki verið skráður á rafrænt eintak leikskýrslu í leik liðsins gegn Árbæ.“