Keppni í Bestu deild kvenna 2023 lokið
Keppni í Bestu deild kvenna 2023 lauk á föstudag með lokaumferðinni í efri hlutanum. Fyrir umferðina var ljóst að Valur fengi Íslandsmeistaraskjöldinn afhentan eftir leik liðsins gegn Breiðabliki á Hlíðarenda.
Svo fór að Breiðablik vann eins marks sigur í leiknum og tryggði sér þar með 2. sæti Bestu deildarinnar og þar með sæti í Evrópukeppni, og fékk Blikaliðið silfrið afhent að leik loknum. Valur lauk keppni með 49 stig, sex stigum á undan Breiðabliki.
Að venju völdu leikmenn besta og efnilegasta leikmann og besta dómara Bestu deildarinnar. Valsarinn Bryndís Arna Níelsdóttir var valin besti leikmaður deildarinnar og Katla Tryggvadóttir úr Þrótti efnilegust. Bryndís Arna var einnig markahæsti leikmaður deildarinnar með 15 mörk og Katla var valin efnilegust annað árið í röð.
Besti dómarinn í Bestu deild kvenna 2023, valinn af leikmönnum deildarinnar, var Þórður Þorsteinn Þórðarson og er þetta annað árið í röð sem Þórður er valinn besti dómarinn í Bestu deild kvenna.
Mynd: Mummi Lú.