Ný reglugerð KSÍ um umboðsmenn í knattspyrnu
Á fundi stjórnar KSÍ þann 11. september sl. samþykkti stjórn KSÍ að fela laga- og leikreglnanefnd að setja upp nýja reglugerð KSÍ um umboðsmenn í knattspyrnu í samræmi við reglugerð FIFA um umboðsmenn (FIFA Football Agent Regulations). Vinna laga- og leikreglnanefndar tók mið af sérstakri fyrirmynd fyrir aðildarsambönd, sem gefin var út af hálfu FIFA vegna innleiðingar á nýrri reglugerð. Tillaga að nýrri reglugerð KSÍ um umboðsmenn í knattspyrnu var endanlega samþykkt af stjórn KSÍ með rafrænum hætti 2. október.
Í reglugerðinni hafa fjölmargar nýjungar verið innleiddar ásamt því að fáeinar eldri reglur hafa verið endurvaktar. Sérstakt FIFA umboðsmannapróf hefur verið tekið upp að nýju og skulu umboðsmenn í knattspyrnu hafa staðist slíkt próf til að geta öðlast réttindi til að starfa sem umboðsmaður. Í nýrri reglugerð eru m.a. innleiddar reglur um hámarksþóknun til umboðsmanns vegna viðskipta. Hámark þóknunar fer eftir því hvers konar umbjóðanda/umbjóðendur um ræðir hverju sinni og hverjar heildartekjur leikmanns eða þjálfara eru á einu ári. Þá hafa verið innleiddar reglur um fyrirsvar ólögráða ungmenna ásamt reglum um starfsskilyrði og starfsþróun umboðsmanna í knattspyrnu. Um ræðir skylduákvæði sem aðildarsamböndum FIFA ber að innleiða í eigin reglugerð.
Ljóst er lögbann hefur verið lagt á innleiðingu tiltekinna ákvæða í reglugerð um umboðsmenn í Þýskalandi. Hvort það kunni að leiða til þess að skylduákvæði í FIFA reglugerð um umboðsmenn muni taka breytingum eða ekki verður að koma ljós. Ef skylduákvæði úr reglugerð FIFA fyrir aðildarsambönd taka breytingum er ljóst að reglugerð KSÍ um umboðsmenn í knattspyrnu mun taka breytingum sömuleiðis. Á meðan lögbanni stendur hefur FIFA leiðbeint aðildarsamböndum að gera viðeigandi undanþágur frá reglugerðinni vegna viðskipta sem hafa tengsl við Þýskaland.