• fös. 29. sep. 2023
  • Mótamál

Úrslitaleikur fótbolti.net bikarsins í dag

Mynd - Hafliði Breiðfjörð

Víðir og KFG mætast í dag, föstudag, í úrslitaleik fótbolti.net bikarsins.

Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst hann kl. 19:15. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi neðrideildabikarkeppni fer fram.

Miðasala á leikinn fer fram á tix.is.

Miðasala

Heiðursgestur Víðis:

Sigurður Ingvarsson

Sigurður Ingvarsson, af mörgum kallaður „Guðfaðir knattspyrnunnar í Garði“ er maður sem er með sannkallað Víðishjarta, sem ennþá mætir á völlinn og lætur í sér heyra.
Sigurður hefur víða komið að uppbyggingu hjá Víðisfélaginu, sem leikmaður, þjálfari og formaður félagsins. Hann var lengi þjálfari yngri flokka félagsins sem seinna urðu uppstaðan í liðinu sem kom Víðir í efstu deild.

Sigurður hefur gefið mikið af sér án þess að gera mikið úr því, en þannig maður er Siggi, sem er virtur í samfélaginu fyrir störf sín.

Sigurður hefur verið sæmdur Silfur- og Gullmerki Víðis og þá er hann heiðursfélagi þess. Sigurður var sæmdur Gullmerki KSÍ 2006. Árið 2020 var honum veitt viðurkenning fyrir óeigingjarnt starf að íþrótta og æskulýðsmálum í Suðurnesjabæ.

Heiðursgestur KFG:

Lárus Guðmundsson

Lárus Guðmundsson er stofnandi KFG, hann var lengi vel formaður og þjálfari félagsins og nafn hans verður alltaf samofið félaginu. Lárus vildi skapa fleiri tækifæri fyrir knattspyrnumenn í Garðabæ og þurfti Lalli að hafa nokkuð fyrir því að fá æfingatíma, búnað og fjárhagslegan stuðning frá bæði bænum og Stjörnunni. Hann barðist fyrir félagið, enda alltaf haft óbilandi trú á verkefninu og líklega sá hann það seint fyrir sér að liðið kæmist í bikarúrslit á Laugardalsvelli. Lárus Guðmundsson er heiðursgestur KFG í kvöld.

Leið liðanna í úrslitaleikinn

1. umferð

KFG - Sindri 5-1

16-liða úrslit

Víðir - Hvíti Riddarinn 5-1

Augnablik - KFG 0-2

8-liða úrslit

Víðir - Völsungur 2-0

ÍH - KFG 2-2, 2-3 í vítakeppni

Undanúrslit

Víðir - KFK 2-1

KFA - KFG 0-1