Dómur áfrýjunardómstóls í máli Vals gegn Víkingi R.
Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur kveðið upp dóm í máli nr. 6/2023 Knattspyrnudeild Vals gegn Knattspyrnudeild Víkings. Hefur áfrýjunardómstóll KSÍ dæmt Knattspyrnudeild Víkings R. til greiðslu sektar að upphæð kr. 250.000,-.
Í niðurstöðukafla dómsins segir m.a.:
„Dómurinn vísar til greinar 12.7. í reglugerð um aga- og úrskurðarmál sem fjallar m.a. um hvar þjálfari eða forystumaður sem mætir á leikstað megi ekki vera staðsettur á meðan hann tekur út leikbann en ekki er um tæmandi talningu að ræða í ákvæðinu þar sem segir ,,...eða annars staðar þar sem hann getur verið í tengslum við lið sitt.“ Eins og orðalag ákvæðisins ber með sér þá er að mati dómsins verið að girða fyrir að þjálfari, sem tekur út leikbann, geti verið í tengslum við lið sitt klukkustund fyrir leik og á meðan á leik stendur.
Samkvæmt 1. mgr. 75. greinar agareglna FIFA ber aðildarsamböndum FIFA, þ.á.m. KSÍ, að aðlaga eigin agareglur að meginreglum agareglna FIFA. Sérstaklega er tiltekið í ákvæðinu að 3. mgr. 66. greinar agareglna FIFA sé álitin skyldubundin í innlendum knattspyrnumótum. Eins og 1. mgr. 75. greinar agareglna FIFA er orðuð, verður að líta svo á að ákvæði 3. mgr. 66. greinar sömu reglna sé fortakslaust. Samkvæmt tilgreindu ákvæði 3. mgr. 66. greinar agareglna FIFA er starfsfólki liðs, þ.á.m. þjálfara, óheimilt að vera í samskiptum við eða hafa samband við einstaklinga tengdum leik, sér í lagi leikmenn og starfsfólk liðsins á meðan leik stendur, á meðan viðkomandi tekur út leikbann. Á sama grundvelli er þjálfara liðs óheimilt taka þátt í blaðamannafundi eftir leik eða hvers konar fjölmiðlastarfsemi á leikvangi í tengslum við leik sem þjálfari tekur út leikbann í.
Með vísan til orðalags greinar 12.7. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál og með hliðsjón af fyrrnefndum ákvæðum agareglna FIFA, sem eru reglugerðinni til fyllingar, er það niðurstaða dómsins að þjálfara mfl. karla hjá varnaraðila hafi verið óheimilt að vera í tengslum eða samskiptum við starfsfólk eða þjálfara Víkings R. í boðvangi á sama tíma og hann tók út leikbann í leiknum. Þá hafi þjálfara verið óheimilt að taka þátt í fjölmiðlastarfsemi á leikvangi í tengslum við umræddan leik.
Í grein 36.1. reglugerðar um knattspyrnumót kemur m.a. fram að félag sem notar þjálfara eða forystumann sem er í leikbanni skuli sæta sektum og viðkomandi frekara leikbanni í samræmi við ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar. Sé slíkt brot framið í meistaraflokki skuli viðkomandi félag sæta sektum að upphæð allt að kr. 300.000,-. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er litið til þess að brotin áttu sér stað í efstu deild meistaraflokks og voru endurtekin á meðan leik stóð. Með hliðsjón af framangreindu, eðli og umfangi brota þjálfara varnaraðila og atvikum máls að öðru leyti er sektarfjárhæð talin hæfilega ákveðin kr. 250.000.“