Íslenska landsliðið mætt til Düsseldorf
Íslenska landsliðið er mætt til Düsseldorf í Þýskalandi þar sem það undirbýr sig fyrir leikinn gegn Þýskalandi á þriðjudag.
Leikurinn fer fram á Ruhrstadion í Bochum og hefst hann kl. 16:15 að íslenskum tíma. Bein útsending verður frá leiknum á RÚV.
Ísland vann fyrsta leik sinn í Þjóðadeild UEFA þegar liðið mætti Wales á föstudag. Glódís Perla Viggósdóttir skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik. Þýskaland hins vegar tapaði sínum fyrsta leik, 0-2 gegn Danmörku.
Íslenska liðið æfði í dag, sunnudag, við góðar aðstæður á æfingasvæði BV 04 Düsseldorf og er staðan á hópnum góð eftir ferðalag gærdagsins.