Undirritun samnings vegna sjónlýsingar á landsleikjum
KSÍ, Blindrafélagið og Samtök íþróttafréttamanna skrifuðu í vikunni undir samstarfssamning vegna sjónlýsingar á A landsleikjum Íslands í fótbolta. Samningurinn felur í sér að félagsmenn Blindrafélagsins geta sótt um þjónustuna á öllum landsleikjum á Laugardalsvelli hjá A landsliðum karla og kvenna í fótbolta.
Fyrsta sjónlýsingin á knattspyrnuleik á Íslandi fór fram þann 17. júní þegar A landslið karla tók á móti Slóvakíu í undankeppni EM 2024. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson sá um lýsinguna á vegum Samtaka íþróttafréttamanna.
Á myndinni hér að ofan eru fulltrúar KSÍ, Blindrafélagsins og Samtaka íþróttafréttamanna ásamt Glódísi Perlu Viggósdóttur og Sveindísi Jane Jónsdóttur leikmanna A landsliðs kvenna.
Tómas Þór Þórðarson formaður Samtaka íþróttafréttamanna, Ómar Smárason deildastjóri samskiptadeildar KSÍ og Rósa María Hjörvar varaformaður Blindrafélagsins við undirskriftina á Laugardalsvelli.