Pistill: Þátttaka þjálfara aðildarfélaga í verkefnum landsliða
Vegna þátttöku þjálfara og annars starfsfólks aðildarfélaga í starfi og verkefnum landsliða
Að gefnu tilefni vill KSÍ árétta að í fjölmörg ár hefur KSÍ fengið aðstoð frá aðildarfélögunum í mönnun starfa og verkefna landsliða Íslands. Er þá verið að tala um störf aðstoðarþjálfara, markmannsþjálfara, leikgreinenda, sjúkraþjálfara, lækna, liðsstjóra o.fl. Þetta samstarf hefur gengið afar vel og reynst gagnlegt öllum þátttakendum, fulltrúum KSÍ og fulltrúum félaganna, enda er tilgangurinn að deila reynslu og þekkingu milli allra, sem nýtist þá bæði í starfi félagsliða og landsliða.
Dæmi um það sem nýtist starfsfólki félaganna eru hugmyndir í þjálfun, þjálfunaraðferðir, leikgreiningartól, GPS og allt það sem verið er að nota í alþjóðlegum fótbolta, auk þess að komast í annað umhverfi og sjá hvað er að gerast annars staðar. Starfsfólk landsliða KSÍ fær á móti aðgang að þekkingu þeirra sem starfa í félagsliðunum um hvað er að gerast út í félögunum frá þessum aðilum. Við vitum til þess að sams konar eða svipað fyrirkomulag er í löndunum sem við berum okkur oft saman við.
KSÍ fær margar ábendingar frá aðildarfélögunum um þjálfara og annað starfsfólk sem væri góður kostur til að koma inn í verkefni KSÍ – úrtaksæfingar, æfingar landsliða, fræðsluverkefni, landsliðsferðir o.s.frv. Þegar KSÍ hefur haft samband út í félögin varðandi möguleikann á samstarfi er undantekningalaust tekið vel í slíkt.
Árið 2017 var tekin sú ákvörðun að aðalþjálfarar landsliða væru í fullu starfi innan KSÍ og gætu ekki starfað í félögunum samhliða starfi sínu innan KSÍ. Hins vegar er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að aðstoðarþjálfarar, markmannsþjálfarar, o.s.frv, geti starfað með félagsliði samhliða starfi með landsliði. Ef KSÍ fengi ekki aðstoð úr þessari átt frá aðildarfélögunum, þá væri starf landsliða Íslands með allt öðrum hætti og í raun ógerlegt að viðhalda núverandi gæðum. Hreyfingin á að geta unnið þetta saman, íslenskri knattspyrnu til heilla.
Það er trú okkar í KSÍ að samstaða sé um þessi mál innan hreyfingarinnar og von um að svo verði áfram, sameiginlegur vilji til samstarfs nú sem fyrr, enda engin ástæða til annars því öll erum við jú í sama liðinu þegar upp er staðið og höldum öll með íslenskum fótbolta.
Ef óskað er eftir frekari upplýsingum eða útskýringum er velkomið að hafa samband við undirritaðan.
Knattspyrnukveðja, Jörundur Áki Sveinsson
Sviðsstjóri knattspyrnusviðs