Knattspyrnudeild Breiðabliks sektuð
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ þann 5. september 2023, var tekin fyrir skýrsla frá eftirlitsmanni á leik Víkings R. og Breiðabliks í Bestu deild karla sem fram fór þann 27. ágúst sl. Eftirfarandi kemur m.a. fram í úrskurðinum:
„Að virtri greinargerð knattspyrnudeildar Breiðabliks og öðrum fyrirliggjandi gögnum er það álit nefndarinnar að framkoma knattspyrnuliðs Breiðabliks í aðdraganda leiks Víkings R. og Breiðabliks í Bestu deild karla þann 27. ágúst sl. hafi verið óásættanleg og falli undir ákvæði 5.10 í lögum KSÍ. Það er afstaða nefndarinnar að með framkomu þeirri sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns hafi Breiðablik virt að vettugi a.m.k. fjórar reglur um framkvæmd knattspyrnuleikja samkvæmt Handbók leikja 2023. Í handbókinni að finna reglur, ábendingar og tilmæli til félaga um framkvæmd leikja í meistaraflokki sem samþykkt var af stjórn KSÍ 29.03.2023.
Handbók leikja sækir stoð sína í heimild í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, um að stjórn KSÍ setji nánari reglur og leiðbeiningar um einstök mót, sbr. grein 1.4. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Er aga- og úrskurðarnefnd heimilt að beita viðurlögum samkvæmt lögum og reglugerðum KSÍ gagnvart m.a. aðildarfélögum KSÍ vegna brota þeirra á lögum KSÍ, reglugerðum KSÍ og öðrum reglum, sbr. grein 2.3. reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Með vísan til greinar 5.10., sbr. k lið 44.1. greinar í lögum KSÍ ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ því að sekta knattspyrnudeild Breiðabliks vegna framkomu knattspyrnuliðs deildarinnar í mfl. karla í aðdraganda leiks Víkings R. og Breiðabliks þann 27. ágúst sl. Þykir upphæð sektar knattspyrnudeildar Breiðabliks hæfilega ákveðin kr. 100.000.“