Hádegisfyrirlestur næstkomandi fimmtudag
KSÍ vekur athygli á viðburði sem HR og ÍSÍ standa að, hádegisfyrirlestri næstkomandi fimmtudag. Sjá nánar um viðburðinn hér að neðan. Fulltrúi KSÍ verður við innganginn og þeir knattspyrnuþjálfarar sem vilja fá endurmenntunarstig verða að gefa sig fram við hann á staðnum.
Frá ÍSÍ:
Hádegisfyrirlestur næstkomandi fimmtudag
Næstkomandi fimmtudag, 31. ágúst býður Íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík í samvinnu við ÍSÍ upp á hádegisfyrirlestur í stofu M208 í HR. Fyrirlesturinn hefst kl. 11:30 og stendur til 12:45. Fyrirlesturinn ber titilinn Performing well at the Olympics: Mental toughness and beyond. Fyrirlesarar verða þeir dr. Daniel Gould og dr. Robert Weinberg.
Hvað þættir skipta máli þegar ná þarf sínu besta fram og allt er undir? Hversu miklu máli skiptir andlegur styrkur í því samhengi? Þessu ætla dr. Daniel Gould og dr. Robert Weinberg að svara í fyrirlestrinum.
Dr. Robert Weinberg er einn helsti sérfræðingur heims í andlegum styrk og mun skoða hversu miklu máli hann skiptir þegar allt er undir. Dr. Weinberg er virtur og afkastamikill fræðimaður á sviði íþróttasálfræði. Hann var sem dæmi tilnefndur sem einn af 10 bestu íþróttasálfræðingum í Norður-Ameríku. Hann hefur birt yfir 150 fræðigreinar, yfir 40 bókakafla og skrifað níu bækur. Samkvæmt Google Scholar hefur verið vitnað í verk hans yfir 20.000 sinnum.
Dr. Daniel Gould, prófessor í íþróttasálfræði var í áraraðir ráðgjafi Bandarísku Ólympíunefndarinnar og gerði röð rannsókna um hvað það er sem skilur að þá sem ná sínu besta fram á Ólympíuleikum og þá sem gera það ekki. Dr. Gould er forstöðumaður Institute for the Study of Youth Sports og prófessor í íþróttasálfræði við Michigan State University. Hann hefur verið ráðgjafi fyrir bandarísku ólympíunefndina, bandaríska tennissambandið og fjölda íþróttamanna á öllum aldri og færnistigum. Hann er öflugur vísindamaður og hefur birt fjölmargar vísindagreinar, bókarkafla og skrifað fjölmargar bækur einnig. Líkt og Dr. Weinberg hefur Dr. Gould verið tilnefndur sem einn af 10 bestu íþróttasálfræðingunum í Norður-Ameríku. Daniel Gould er einn af höfundum kennslubókarinnar Foundatoins of Sport and Exercise Psychology.
Frítt verður inn á fyrirlesturinn, ekki verður boðið upp á streymi og skráningar ekki þörf.