• fös. 21. júl. 2023
  • Landslið
  • U19 kvenna

Sigur hjá U19 gegn Tékklandi

Ísland vann 2-0 sigur gegn Tékklandi í lokakeppni EM U19 kvenna í Belgíu. Var þetta annar leikur liðsins á mótinu og er liðið með þrjú stig eftir tvo leiki þegar einn leikur er eftir í riðlakeppninni.

Ísland byrjaði leikinn af krafti og komst yfir á 13. mínútu með skallamarki frá Vigdísi Lilju Kristjánsdóttir eftir frábæra fyrirgjöf Sigdísar Evu Bárðardóttur. Í síðari hluta fyrri hálfleiks lá Tékkland á íslenska liðinu en íslensku stelpurnar héldu út og fóru með 1-0 forystu inn í hálfleik.

Síðari hálfleikur einkenndist af baráttu hjá báðum liðum. Á 85. mínútu dró til tíðinda þegar Snædís María Jörundsdóttir innsiglaði 2-0 sigur Íslands með marki eftir aukaspyrnu frá Sædísi Rún Heiðarsdóttur.

Síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni er á mánudaginn gegn Frakklandi. Leikurinn hefst klukkan 18:30 og verður í beinni útsendingu á RÚV2.