Tap gegn Finnlandi
Mynd: Mummi Lú
Ísland tapaði 2-1 fyrir Finnlandi í vináttulandsleik sem fram fór á Laugardalsvelli í dag, föstudag.
Ísland hafði yfirhöndina í upphafi leiks en Finnland náði stjórn á leiknum um miðjan fyrri hálfleik og náði forystu með marki á 27. mínútu. Staðan 0-1 þegar liðin gengu til hálfleiks.
Á 66. mínútu skoraði Finnland sitt annað mark og kom sér í góða stöðu. Berglind Rós Ágústsdóttir, sem kom inn á sem varamaður á 63. mínútu, skoraði gott mark eftir aukaspyrnu frá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. Var þetta fyrsta landsliðsmark Berglindar fyrir A-landslið kvenna.
Fleiri urðu mörkin ekki og 1-2 sigur Finna staðreynd.
Ísland heldur til Austurríkis á laugardag þar sem liðið mætir Austurríki í vináttuleik á þriðjudaginn. Leikurinn verður í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Sjónvarpi Símans og hefst hann klukkan 17:45.