• fim. 13. júl. 2023
  • Agamál

Dómur áfrýjunardómstóls í máli KR gegn Fylki

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur kveðið upp dóm í máli nr. 4/2023 knattspyrnudeild KR gegn knattspyrnudeild Fylkis. Hefur áfrýjunardómstóll KSÍ staðfest úrskurð aga- og úrskurðarnefndar KSÍ þar sem kröfum KR var hafnað og úrslit í leik KR og Fylkis, sem fram fóru þann 12. maí 2023 voru látin standa óhögguð.

Í niðurstöðukafla dómsins segir m.a.:
„Dómurinn tekur undir forsendur í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar um að ágreiningslaust sé að Fylkir hafi gert breytingu á leikskýrslu vegna varamannsins, Söru Daggar Árnadóttur sem var óleikfær. Í stað Söru Daggar hafi Birna Kristín Eiríksdóttir verið skráð sem varamaður á leikskýrslu hjá Fylki. Birna Kristín hafði áður verið skráð á sömu leikskýrslu í liðsstjórn hjá Fylki. Því til stuðnings liggur fyrir dómnum útprentað eintak af leikskýrslu í umræddum leik KR og Fylkis í Lengjudeild kvenna sem lagt var fram af dómara leiksins. Áfrýjandi vísar til þess í greinargerð sinni að óljóst sé hvenær sú breyting hafi átt sér stað. Að mati dómsins verður ekki annað ráðið af gögnum málsins, þ.á.m. framburði frá dómara leiks og greinargerð varnaraðila, en að breyting á leikskýrslu hafi átt sér stað tæpum klukkutíma fyrir leik.

Að mati dómsins verður að horfa til fyrirmæla í Handbók leikja 2023 vegna breytinga á leikskýrslu knattspyrnuleikja í mótum á vegum KSÍ. Fyrirmæli í Handbók leikja 2023 kveða að meginreglu á um að bæði lið þurfi að fylla út leikskýrslu, prenta hana út, undirrita og afhenda dómara leiksins eigi síðar en 45 mínútum fyrir leik. Í undantekningartilvikum megi gera breytingar á útfylltri leikskýrslu, en það á aðeins við ef einhver byrjunarliðsmanna eða varamanna getur ekki leikið vegna óvæntra meiðsla/veikinda. Við slíka breytingu á varamönnum skal strika yfir nafn varamanns og í stað varamanns skal koma leikmaður sem ekki var skráður á upphaflegu leikskýrsluna. Dómurinn lítur svo á að fyrirmæli í Handbók leikja komi ekki í veg fyrir að einstaklingur sem áður var skráður í liðsstjórn á leikskýrslu taki stöðu varamanns við óvænt meiðsli/veikindi leikmanns og telur dómurinn að breytingin hafi verið í samræmi við fyrirmæli í Handbók leikja 2023.“


Dómur áfrýjunardómstóls KSÍ í máli nr. 4/2023