Hljóta heiðursviðurkenningu fyrir 100 A-landsleiki
Samkvæmt reglugerð KSÍ um landsliðs- og heiðursmerki skal veita þeim leikmönnum sem ná 100 A-landsleikjum heiðursviðurkenningu. Hefð er fyrir því að veita viðurkenninguna á fyrsta ársþingi KSÍ eftir að hundraðasti leikurinn er spilaður. Ef leikmenn komast ekki á ársþingið er viðurkenningin veitt við fyrsta tækifæri eftir það.
Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir hafa báðar náð 100 landsleikjum fyrir A-landslið Íslands og afhenti Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, þeim málverk eftir Tolla í viðurkenningarskyni fyrir áfangann á hóteli íslenska liðsins. Liðið er nú að undirbúa sig fyrir komandi vináttuleiki gegn Finnlandi og Austurríki.
Dagný Brynjarsdóttir lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2010 á Algarve Cup gegn Bandaríkjunum og þann hundraðasta lék hún árið 2022 í undankeppni HM 2023 gegn Belarús. Dagný hefur leikið 113 A-landsleiki og skorað í þeim 38 mörk.
Landsleikir - Dagný Brynjarsdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2012 í vináttuleik gegn Skotlandi og þann hundraðasta lék hún árið 2022 í undankeppni HM 2023 gegn Belarús. Glódís hefur leikið 112 A-landsleiki og skorað í þeim níu mörk.