• mið. 05. júl. 2023
  • Mótamál
  • Mjólkurbikarinn

KA í bikarúrslit karla

KA tryggði sér á þriðjudag sæti í úrslitaleik Mjólkurbikars karla í fyrsta sinn í 19 ár eftir sigur gegn Breiðablik.

Liðin mættust á Akureyri og var markalaust þegar liðin gengu til hálfleiks. Í síðari hálfleik skoraði hvort lið tvö mörk. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir KA á 56. mínútu. Klæmint Andrasson Olsen jafnaði metin fyrir Blika á 86. mínútu. Á annarri mínútu uppbótatíma kom Höskuldur Gunnlaugsson Breiðablik yfir en Ívar Örn Árnason jafnaði fyrir KA á sjöttu mínútu uppbótatíma og því var gripið til framlengingar.

Í framlengingu skoruðu bæði lið sitt markið hvort þar sem Höskuldur Gunnlaugsson skoraði fyrir Blika úr vítaspyrnu á 105. mínútu og Pætur Joensson Petersen jafnaði fyrir KA á 117. mínútu. Staðan 3-3 eftir framlengingu og því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni.

KA hafði betur í vítaspyrnukeppninni þar sem þeir skoruðu úr þremur spyrnum en Blikar skoruðu úr einni.

KA mætir annað hvort Víking R. eða KR en þeim leik hefur verið frestað um óákveðinn tíma og verður tímasetning hans ákveðin í samræmi við árangur Víkings í Evrópukeppni.

Mjólkurbikar karla