• mán. 05. jún. 2023
  • Fræðsla

ReyCup Senior fór fram í fyrsta skipti í apríl

Í byrjun apríl hélt Þróttur Reykjavík sérstakt ReyCup Senior mót fyrir leikmenn 40 ára og eldri, oft kallað "Old Boys". ReyCup mótið þekkja margir en það er haldið í júlí og er fyrir leikmenn á aldrinum 13-16 ára, íslenska jafnt sem erlenda.

Á ReyCup Senior í ár voru 11 lið skráð til leiks, átta frá Íslandi og þrjú frá Skotlandi. Frá Íslandi voru það Grótta, Keflavík, Léttir/Þróttur, FC Engjavegur, Þróttur, Köttarar, SR og FC Sækó var gestalið. Frá Skotlandi tóku þátt liðin Falkirk Foundation FFIT, Raith Rover Seniors og Scotland Select. Þátttökugöld liða runnu óskipt til styrktar starfsemi FC Sækó.

Í gegnum árin hefur Old Boys hópur Þróttar myndað góð tengsl við lið frá Skotlandi og fara Þróttarar nú árlega í keppnisferð til Skotlands. Nýlega fór Þróttur með fjögur lið á mótið Lava Cup sem haldið var á Newton Park, heimavelli Skoska liðsins Bo'ness. Einn helsti skipuleggjandi Lava Cup er Íslandsvinurinn Marc Boal. Þróttarar fóru með fjögur lið á Lava Cup og hittu þar fyrir átta lið frá Bretlandi.

Ákveðið hefur verið að Lava Cup fari fram árlega að vori í Skotlandi og ReyCup Senior að hausti á svæði Þróttara í Laugardalnum.

Hér má sjá umfjöllun um mótið á Youtube.

Verðlaunaafhending Lava Cup 2023