Jafnréttismál ofarlega á baugi
Stjórn KSÍ fundaði á Akranesi 3. maí síðastliðinn og að venju voru ýmis mál á dagskrá. Meðal þess sem fjallað var um að þessu sinni voru jafnréttismál og samþykkti stjórnin t.a.m. skipan í sérstakan starfshóp um kynjajafnrétti.
Rætt var um U21 landslið kvenna og möguleg verkefni, en UEFA býður ekki upp á mót fyrir þann aldursflokk kvenna. KSÍ mun halda áfram að beita sér fyrir því máli á vettvangi UEFA, ásamt janfréttismálum sem m.a. snúa að kynjaskiptingu í stjórn og nefndum UEFA, sem og nafnagiftum á mótum á vegum UEFA. Öll mót á vegum KSÍ bera heiti þess kyns sem tekur þátt, sbr. Besta deild karla og Besta deild kvenna, en þannig er það ekki hjá UEFA, sbr. Meistaradeild (UEFA Champions League) og Meistaradeild kvenna (UEFA Women´s Champions League).
Þá má geta þess að stofnfundur ungmennaráðs var haldinn 27. apríl síðastliðinn og sátu ellefu ungmenni fundinn. Rifjað var upp Ungmennaþing KSÍ og var til dæmis rætt um dómgæslu, hegðun foreldra, andlega líðan iðkenda og stelpur í þjálfun.