Stjórn KSÍ fundaði á Akranesi
Stjórn KSÍ fundaði miðvikudaginn 5. maí síðastliðinn og fór fundurinn að þessu sinni fram á Akranesi.
Í tengslum við stjórnarfundinn var fundað með fulltrúum Akraneskaupstaðar, þeim Haraldi Benediktssyni bæjarstjóra, Steinari Adolfssyni sviðsstjóra og Alfreði Alfreðssyni sviðsstjóra. Einnig sátu fundinn fulltrúar Knattspyrnufélags ÍA, þeir Eggert Herbertsson formaður og Eyjólfur V. Gunnarsson. Rædd voru ýmis sameiginleg hagsmunamál, m.a. um aðstöðu og ferðakostnað, auk þess sem rætt var um það hvernig fjárfesting í íþróttum skilaði sér margfalt til baka í bættri lýðheilsu.
Stjórnin skoðaði síðan aðstöðu knattspyrnufélags ÍA og fékk kynningu frá Eggerti formanni ÍA um starfsemi félagsins og framtíðarhorfur, auk þess sem kynnt var afar áhugaverð stefnumótun ÍA sem gildir til 2028 og farið yfir lykilmælikvarða árangurs að mati félagsins. Ýmis önnur mál voru rædd, þ.á.m. áherslur ÍA á menntun þjálfara og hlutfall kynjanna í þjálfarastörfum félagsins, framtíðarskipulag mannvirkjamála, og hlutfall kvenna í fótbolta og áskorunina að fá stelpur í fótbolta.
Stjórn KSÍ lofaði ÍA fyrir þá virðingu og sóma sem félagið sýnir sögu félagsins og þeim einstaklingum sem hafa lagt af sitt af mörkum við framgang knattspyrnunnar á Akranesi.
Í kjölfarið var svo stjórnarfundur og að fundinum loknum var haldin óformleg samverustund stjórnar ÍA og stjórnar KSÍ.