• sun. 16. apr. 2023
  • Mótamál
  • Meistarakeppnin

Meistarakeppni kvenna fer fram á mánudag

Íslands- og bikarmeistarar Vals taka á móti Stjörnunni í Meistarakeppni KSÍ á mánudag. Venjulega mæta ríkjandi Íslandsmeistarar ríkjandi bikarmeisturum en þar sem Valur ber báða titla mætir það Stjörnunni sem endaði í 2. sæti á Íslandsmótinu 2022.

Leikurinn fer fram á heimavelli Vals, Origo vellinum og hefst hann klukkan 19:30. Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV 2 og hefst útsending klukkan 19:20.

Í Meistarakeppni kvenna 2023 verður í fyrsta skiptið keppt um Svanfríðarbikarinn, nýjan farandbikar til heiðurs Svanfríði Guðjónsdóttur. Svanfríður hefur unnið ötullega að uppbyggingu knattspyrnu kvenna á Íslandi. Hún var fyrsta konan sem kjörin var í stjórn Knattspyrnusambands Íslands en hún hafði starfað í kvennanefnd KSÍ áður en hún var kosin í stjórn. Svanfríður vann mikið með landsliði kvenna í knattspyrnu um árabil, útvegaði æfingaleiki og var því til halds og trausts á ýmsan hátt. Einnig starfaði hún mikið í kringum kvennaknattspyrnuna í Breiðabliki á fyrstu árum hennar en dóttir hennar spilaði á þeim árum með Breiðabliki og einnig með landsliðinu. Svanfríður var meðlimur í Umbótanefnd ÍSÍ fyrir konur í íþróttum um árabil og vann þar frábært starf að hagsmunamálum kvenna í íþróttahreyfingunni.

Miðasala á leikinn er í gegnum Stubb-appið og miðaverð er kr. 2.000 fyrir 17 ára og eldri, frítt inn fyrir 16 ára og yngri, og frítt inn fyrir öryrkja.