Stjarnan og Valur Lengjubikarmeistarar
Mynd: Helgi Halldórsson
Úrslitaleikir í Lengjubikar karla og kvenna fóru fram um helgina. Í kvennaflokki tók Stjarnan á móti Þór/KA og í karlaflokki tók KA á móti Val.
Stjörnukonur höfðu betur í vítaspyrnukeppni
Í Garðabæ voru það gestirnir sem komust yfir með marki frá Söndru Maríu Jessen á 15. mínútu en Snædís María Jörundsdóttir jafnaði metin fyrir Stjörnuna á 34. mínútu og staðan 1-1 í hálfleik.
Aftur komst Þór/KA yfir með marki frá Huldu Ósk Jónsdóttur á 63. mínútu. Á 76. mínútu jöfnuðu Stjörnukonur aftur með marki frá Ólínu Ágústu Valdimarsdóttur. Staðan var 2-2 eftir venjulegan leiktíma og því var gripið til vítakeppni. Þar höfðu Stjörnukonur betur sem skoruðu úr öllum sínum spyrnum á meðan ein spyrna Þórs/KA fór forgörðum.
Valsmenn höfðu betur í vítaspyrnukeppni
Á Akureyri tóku KA menn á móti Val. Markalaust var framan af leik en Hallgrímur Mar Steingrímsson kom heimamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu á 71. mínútu. Allt stefndi í sigur KA manna en Birkir Már Sævarsson jafnaði metin á 90. mínútu og því var gripið til vítaspyrnukeppni.
Í vítaspyrnukeppninni hafði Valur betur, þeir skoruðu úr fjórum spyrnum en KA menn úr þremur.