Rey Cup Senior á laugardag
Laugardaginn 1. apríl heldur Þróttur í fyrsta skipti sérstakt Rey Cup Senior-mót fyrir eldri flokka leikmanna yfir 40 ára aldri (oldboys). Samnefnt mót er jafnan haldið í júlímánuði í Laugardalnum með yfir 100 liðum leikmanna á aldrinum 13-16 ára, íslenskum og erlendum.Að þessu sinni etja kappi í Rey Cup Senior átta lið frá Íslandi og þrjú frá Skotlandi. Íslensku þátttökuliðin eru Grótta, Keflavík, Léttir, Þróttur (4 lið) og gestalið FC Sækó. Skotar senda Falkirk Foundation FFIT, Raith Rover Seniors og Scotland Select. Þátttökugjöld liða í mótinu renna óskipt til styrktar starfsemi FC Sækó, sem æfir einmitt í Laugardalnum hjá Þrótti.
Rey Cup Senior fer fram milli kl. 12 og 16 á laugardaginn og að móti loknu verður haldið til móttöku hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Þess má geta að Rey Cup Senior er einnig með undirtitilinn North Atlantic Cup.
Oldboys-hópur Þróttar telur hátt í 200 iðkendur og boðið er upp á níu æfingar á viku allt árið um kring fyrir félagsmenn. Ástæða góðrar mætingar liða frá Skotlandi á fyrsta Rey Cup Senior-mótið eru náin tengsl Þróttara við Skotland, sem þróast hafa um áratuga skeið. Fyrst gegnum samskipti og gagnkvæmar liðsheimsóknir Þróttar og skoskra liða, sem David Moyes eldri stýrði gjarnan. En nú á síðari árum með árlegum keppnisferðum oldboys Þróttar til Skotlands undir stjórn Marc Boal, Íslandsvinar frá Aberdeen.