Grasrótarverkefni ársins 2022: Eldri flokkur Þróttar R.
Grasrótarverðlaunum KSÍ er skipt upp í þrjá flokka: Grasrótarverkefni ársins, Grasrótarfélag ársins og Grasrótarpersóna ársins. Þetta er í annað sinn sem verðlaunum er þrískipt með þessum hætti.
Mjög ánægjulegt var að sjá hversu margar flottar tilnefningar bárust í öllum þremur flokkunum í ár og greinilegt að grasrótarstarf í fótbolta er í miklum blóma víðs vegar um land. Það var verðugt verkefni að velja úr og margar tilnefningar komu til greina.
Grasrótarverkefni ársins:
Þróttur R. fyrir grasrótarfótbolta eldri flokks
Þróttur R. hefur um árabil státað af miklu og góðu starfi þegar kemur að grasrótarfótbolta eldri flokks (eldri bolta og göngufótbolta). Í Old Boys klúbbi Þróttar eru 150 virkir þátttakendur þar sem boðið er upp á alls 9 æfingar á viku. Þessi félagsskapur hefur reynst félaginu gríðarlega mikilvægur í öllu sjálfboðaliðastarfi, m.a. við gæslu á leikjum, dómgæslu á heimaleikjum allra flokka, fjáraflanir og ýmsum öðrum tilfallandi verkefnum, stórum jafnt sem smáum, sem gagnast hafa félaginu. Fram kemur í tilnefningunni að lykilmaður í þessu góða starfi Þróttar er Guðberg K. Jónsson, sem byrjaði að spila með Old Boys liði Þróttar árið 2000 og hefur á þessum tíma m.a. setið í flokksráðum allra yngri flokka félagsins, heimaleikjaráði og stjórn Knattspyrnudeildar og átt í talsverðu samstarfi við KSÍ um eflingu grasrótarbolta.
Mynd (frá vinstri): Rúnar Már Sverrisson, Indriði Waage og Guðberg K. Jónsson frá Þrótti, Ásamt Degi Sveini Dagbjartssyni frá KSÍ.