Grunnur styrktur til framtíðar
KSÍ hefur nú birt ársreikning fyrir árið 2022 og fjárhagsáætlun fyrir árið 2023.
- Hagnaður KSÍ var 156,8 milljónir króna sem skýrist að mestu af mótvægisstyrk frá stjórnvöldum vegna heimsfaraldurs og uppgjöri sjónvarpsréttinda.
- Kostnaður við mótahald var rúmar 245 milljónir króna og þar af er dómarakostnaður 80%.
- KSÍ hækkaði greiðslur til félaga um 30% milli ára og jafnaði sjónvarpsgreiðslur karla og kvennaliða í bikarkeppninni í ár.
Rekstrartekjur KSÍ á árinu 2022 voru 2.047 milljónir króna eða 15% hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Stærstu tekjuliðir sambandsins eru annars vegar styrkir og framlög (FIFA, UEFA, samstarfsaðilar) og hins vegar tekjur vegna sölu á sjónvarpsrétti A landsliðs karla.
Þá fékk KSÍ úthlutað rúmum 110 milljónum króna í mótvægisstyrk frá stjórnvöldum vegna heimsfaraldurs, sem kemur til móts við hluta af því tjóni sem KSÍ varð fyrir á tímum Covid.
Tekjur sambandsins af sjónvarpsrétti voru 145 milljónum króna yfir áætlun og var það vegna uppgjörs á sjónvarpsréttargreiðslum vegna tímabilsins 2018-2022.
Rekstrargjöld síðasta árs voru einnig hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir eða 1.748 milljónir króna miðað við 1.641 milljón króna áætlun. Heildarkostnaður landsliða á síðasta ári var áætlaður rúm 871 milljón króna en niðurstaða ársins var hins vegar 931 milljón króna. Var hækkunin frá áætlun helst vegna leikja A landsliðs karla í nóvember sem á sama tíma skiluðu auknum tekjum. Kostnaður við A landslið kvenna fór fram úr áætlun vegna aukins kostnaðar við þátttöku í úrslitakeppni EM í sumar. Umframkostnaður kom aðallega til vegna sóttvarnarráðstafana.
Skrifstofu- og rekstrarkostnaður var 351 milljón króna og er hæsti einstaki liðurinn launakostnaður sem var 256 milljónir. Sá liður fór 5% fram yfir áætlun sem skýrist m.a. af lögbundnum launahækkunum, uppbót til starfsmanna og starfsmannabreytingum.
Kostnaður við mótahald var áætlaður rúmar 235 milljónir króna en endaði í rúmum 245 milljónum króna og þar af er dómarakostnaður 80%.
Hagnaður ársins fyrir ráðstöfun til aðildarfélaga nam rúmum 310 milljónum króna miðað við 139 milljónir króna í áætlunum. 153 milljónum var úthlutað til aðildarfélaga sem er um 30% hærra en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Hagnaður Knattspyrnusambands Íslands á árinu 2022 er því 156,8 milljónir króna.
Fjárhagsáætlun 2023
Gert er ráð fyrir að heildartekjur KSÍ árið 2023 verði 1.856 milljónir króna samanborið við 2.047 milljónir króna árið 2022. Það þarf að horfa til þess að tekjur sambandsins árið 2022 hafa takmarkað samanburðargildi vegna fyrrnefndra einskiptisgreiðslna.
Gert er ráð fyrir að heildargjöld ársins 2023 verði 1.736 milljónir króna samanborið við 1.748 milljónir króna árið 2022.
Í rekstraráætlun fyrir 2023 er gert ráð fyrir 23 milljóna króna hagnaði.
„Það er jákvætt að við náum að skila afgangi eftir ár eins og 2022 en hafa þarf í huga að það sem veldur því eru einskiptisgreiðslur sem koma ekki aftur. En með því að skila afgangi getum við styrkt eigið fé sambandsins sem gerir okkur bæði kleift að bregðast við óvæntum atburðum og að styðja enn betur við fótboltann. Má þar nefna að á árinu gátum við aukið greiðslur til félaganna. Og á sama tíma og við viljum gera vel á hverju ári þurfum við einmitt líka að búa til sterkan grunn til framtíðar,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.