A kvenna - Sigur gegn Skotlandi
A kvenna vann 2-0 sigur gegn Skotlandi í fyrsta leik sínum á Pinatar Cup á spáni í dag, miðvikudag.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, sem var að spila sinn fyrsta A landsleik, skoraði bæði mörk Íslands á tveggja mínútna kafla í upphafi síðari hálfleiks.
Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur og spilaði vindurinn þar stórt hlutverk. í fyrri hálfleik spilaði Ísland á móti vindi og voru Skotar með stífa pressu sem reyndist erfitt að leysa úr. Í síðari hálfleik var meiri ró yfir spilamennsku Íslands og gekk liðinu betur að stjórna leiknum.
Á 50. mínútu kom Ólöf Sigríður Kristinsdóttir Íslandi yfir eftir góða sendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur. Ólöf Sigríður kórónaði sinn fyrsta leik með sínu öðru marki, aðeins mínútu síðar, þegar hún átti gott skot úr teignum eftir samspil við Amöndu.
Næsti leikur Íslands er gegn Wales laugardaginn 18. febrúar klukkan 19:30.