Framboðsfrestur í varastjórn framlengdur til miðvikudags
Frestur til að skila inn framboðum í stjórn KSÍ fyrir 77. ársþing KSÍ rann út á miðnætti 11. febrúar.
Kjörnefnd kom saman í dag, 13. febrúar, og fór yfir framkomin framboð. Í ljósi þess að ekki barst nægjanlegur fjöldi framboða í varastjórn KSÍ hefur kjörnefnd ákveðið, með vísan til greinar 15.4 í lögum KSÍ, að framlengja framboðsfrest til varastjórnar til kl. 16:00 miðvikudaginn 15. febrúar.
Framboð til varastjórnar skulu send á þar til gerðu eyðublaði með tölvupósti til Hauks Hinrikssonar, lögfræðings á skrifstofu KSÍ (haukur@ksi.is), innan tilsetts frests. Með tilkynningu um framboð er óskað eftir stuttri ferilskrá til birtingar á heimasíðu KSÍ.
Alls bárust fjögur framboð í stjórn (fjögur sæti) og eru þau Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Helga Helgadóttir, Tinna Hrund Hlynsdóttir og Unnar Stefán Sigurðsson því sjálfkjörin. Ekkert framboð hefur borist í varastjórn (þrjú sæti).