Skýrsla starfshóps um varalið í mfl. kvenna
Á ársþingi KSÍ í febrúar 2022 var lögð fram tillaga til ályktunar um breytingar á grein 29 (meistaraflokkur kvenna) í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Tillagan hljóðaði svona:
Lagt er til að ársþing KSÍ 2022 samþykki breytingar á grein 29 (meistaraflokkur kvenna) í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót með eftirfarandi hætti: Lagt er til að félögum verði heimilt að skrá til leiks varalið í meistaraflokki kvenna sem hefur þátttökurétt í deildakeppni Íslandsmóts. Hlutgengi með varaliði hafi allir leikmenn sem eru skráðir í félagið nema þeir 11 leikmenn sem hafa leikið flesta leiki með aðalliði á sama leiktímabili og þeir leikmenn sem byrjuðu og/eða tóku þátt í fyrri hálfleik síðasta leik aðalliðs á undan. Varalið getur ekki unnið sér sæti í efstu deild. Varalið getur fallið um deild. Varalið og aðallið félags geta ekki leikið í sömu deild.
Tillögunni fylgdi eftirfarandi greinargerð:
Sumarið 2021 léku fimm varalið/aukalið í Íslandsmóti meistaraflokks kvenna, í 1. og 2. deild. Ljóst er að áhuginn á að veita ungum leikmönnum verðug verkefni er til staðar hjá fleiri félögum. Markmiðið með þessari breytingu sem lagt er til að verði gerð á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót er tvíþætt: 1. Að gera félögum sem tefla fram varaliði/aukaliði kleift að gefa efnilegum leikmönnum innan síns félags tækifæri með aðalliði án þess að tilfærslur á milli liða hamli því. Enn fremur geti leikmenn sem spili fáar mínútur með aðalliði fengið nauðsynlegan spiltíma í næsta liði fyrir neðan í stað þess að spila ekki neitt. Með þessu skapist þær aðstæður að leikmenn geta fengið tækifæri með aðalliðinu í réttri goggunarröð hvenær sem er ársins. 2. Lið sem leika í Evrópukeppni eru bundin af því að nota þann leikmannahóp sem gefinn er upp til UEFA hverju sinni. Í núverandi mynd geta félög ekki nýtt leikmenn úr næsta styrkleikaflokki ef svo ber við heldur þurfa að ganga framhjá leikmönnum sem hugsanlega eiga skilið að fá kallið þegar það kemur þar sem þeir eru ekki skráðir í viðkomandi félag. Aðstæður sem þessar sköpuðust hjá Breiðablik í tengslum við riðlakeppni Meistaradeildarinnar haustið 2021 og viðbúið er að Valur geti lent í sömu aðstæðum á næsta tímabili. Kostir tillögunnar eru tvímælalaust að fleiri krefjandi verkefni fyrir leikmenn gefa einfaldlega af sér fleiri og betri leikmenn. Leikmenn í aðalliði meistaraflokks sem komast ekki í byrjunarlið fá tækifæri til að spila með varaliði og geta þar með sýnt betur hvað í þeim býr í von um að öðlast sæti í byrjunarliði aðalliðs. Efnilegir leikmenn sem spila nú með varaliði/aukaliði hafa þá áþreifanlegri möguleika á að vinna sér sæti í aðalliði félags. Með vísan í nefndarstörf KSÍ um úrbætur á fyrirkomulagi deildarkeppni í meistaraflokki kvenna er lagt til að þessi breyting taki gildi strax fyrir Íslandsmótið 2022 til reynslu. Fyrirkomulagið yrði eins og fram kemur í texta tillögunnar en það er jafnframt nú þegar fyrirkomulagið í yngri flokkum, sbr. reglugerð KSÍ um knattspyrnumót (grein 7.5.2.). Fyrirmynd: Svipað fyrirkomulag er í mörgum Evrópulöndum, þar á meðal Danmörku, Þýskalandi og Spáni . Ef Ísland ætlar sér að eiga leikmenn og landslið sem standast þeim bestu snúning í framtíðinni er mikilvægt að hlúa vel að ungum leikmönnum og gefa þeim sem flest verkefni við hæfi.
Samþykkt var á þinginu að vísa tillögunni til starfshóps á vegum KSÍ og var sú tillaga samþykkt með meirihluta atkvæða. Starfshópurinn hefur skilað skýrslu til stjórnar KSÍ og má sjá hana hér: