Opið fyrir umsóknir um rannsóknarstyrk UEFA
Sjóður UEFA fyrir sérstaka rannsóknarstyrki (UEFA Research Grant Programme) var settur á laggirnar árið 2009 og hefur sjóðurinn stutt við rannsóknir fræðimanna sem starfa að verkefnum í samstarfi við aðildarsambönd UEFA allar götur síðan. Á styrkjatímabilinu sem er nýlega lokið bárust samtals 44 umsóknir um rannsóknarstyrki frá 21 evrópsku knattspyrnusambandi. Rannsóknarstyrkir UEFA styðja við og hvetja til samstarfs milli knattspyrnusambandanna og fræðasamfélagsins.
Sótt er um rannsóknarstyrk UEFA vegna (knattspyrnutengdra) verkefna sem tengjast rannsóknum í hagfræði, sagnfræði, lögfræði, stjórnun og rekstri, stjórnmálafræði, sálfræði og félagsfræði. Rannsakandinn þarf að vera í samstarfi við knattspyrnusamband eða -sambönd innan UEFA og þarf annað hvort að hafa doktorsgráðu eða vera í doktorsnámi í viðkomandi fræðum. Upphæð styrks til verkefnis er að hámarki 15 þúsund evrur (20 þúsund evrur ef um sameiginlegt verkefni fleiri en eins knattspyrnusambands er að ræða). Allt að fimm verkefni munu fá styrk í ár og hvetur UEFA konur sérstaklega til að sækja um.
Athugið að umsóknir vegna rannsókna í læknisfræði eru ekki lengur partur af þessum tiltekna sjóði. Nýr sjóður verður kynntur á árinu sem er sérstaklega ætlaður verkefnum tengdum læknisfræði.
Reiknað er með níu mánuðum til að ljúka við rannsókn og skila niðurstöðum. Umsóknum þarf að skila til UEFA í síðasta lagi 15. mars 2023.