Heimsóknir á Höfn og Dalvík
Þjálfarar yngri landsliðanna hafa verið á ferð og flugi síðustu vikur. Í lok nóvember heimsótti Magnús Örn Helgason, þjálfari U17 ára landsliðs kvenna, Dalvík þar sem hann stýrði æfingu hjá 3. og 4. flokki karla og kvenna hjá Dalvík/KF ásamt þjálfurum krakkanna. Um 45 leikmenn frá Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði mættu á æfinguna sem fór fram á gervigrasvellinum á Dalvík. Samstarf Dalvíkur og KF hefur verið gott í yngri flokkunum síðustu ár og gerir félögunum kleift að mynda stærri æfingahópa og tefla fram liðum í fleiri flokkum en ella.
Í desember fóru Magnús Örn og Margrét Magnúsdóttir, þjálfari U19 ára landsliðs kvenna, í heimsókn til Sindra á Höfn í Hornafirði. Þar stýrðu þau Magnús og Margrét æfingu hjá 3. flokki kvenna og 4. flokki karla en þessir tveir flokkar æfa iðulega saman. Á æfingunni var áberandi hve mikil eining ríkti innan hópsins þrátt fyrir að hann væri blandaður og ljóst að virðing og vinátta var ríkjandi. Að æfingunni lokinni héldu þjálfararnir fyrirlestur fyrir krakkana og hvöttu þau til dáða. Knattspyrnufólki frá minni sveitarfélögum eru sannarlega allir vegir færir eins og dæmin hafa sannað.