Glódís önnur í kjörinu á íþróttamanni árins
Glódís Perla Viggósdóttir lenti í 2. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins árið 2022. Glódís fékk 276 stig. Handknattleiksmaðurinn Ómar Ingi Magnússon hlaut nafnbótina annað árið í röð.
Glódís hefur verið fastur hlekkur í vörn Bayern München og íslenska landsliðsins á árinu, líkt og áður. Á síðastliðnu keppnistímabili lenti Bayern München í öðru sæti í þýsku úrvalsdeildinni og komst í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Liðið situr nú í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og er búið að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Glódís Perla lék 11 leiki með landsliðinu á árinu, þar af var hún í byrjunarliðinu í öllum þremur leikjum liðsins á EM í Englandi.
Sandra Sigurðardóttir, markmaður íslenska landsliðsins og Íslands- og bikarmeistara Vals, lenti í 6. sæti í kjörinu.
A-landslið kvenna lenti í þriðja sæti í kjörinu á liði ársins og var kvennalið Vals í fótbolta og karlalið Breiðabliks í fótbolta með jafnmörg stig í 4. sæti sem lið ársins.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta, varð þriðji í kjörinu á þjálfara ársins, ásamt Guðmundi Þ. Guðmundssyni þjálfara A-landsliðs karla í handbolta. Pétur Pétursson, þjálfari kvennaliðs Vals í fótbolta varð fjórði í kjörinu. Þorsteinn Halldórsson þjálfari A-landsliðs kvenna varð sjötti í kjörinu ásamt Finn Frey Stefánssyni þjálfara karlaliðs Vals í körfubolta.