• fim. 22. des. 2022

2286. fundur stjórnar KSÍ - 8. desember 2022

2286. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 8. desember 2022 og hófst kl. 16:00. Fundurinn var haldinn í félagsaðstöðu knattspyrnudeildar Selfoss.

Mættir stjórnarmenn: Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Sigfús Ásgeir Kárason varaformaður, Guðlaug Helga Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, Ívar Ingimarsson, Torfi Rafn Halldórsson og Unnar Stefán Sigurðsson.

Mættir varamenn í stjórn: Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Kolbeinn Kristinsson og Tinna Hrund Hlynsdóttir.

Mættir fulltrúar landshluta: Trausti Hjaltason, Oddný Eva Böðvarsdóttir, Eva Dís Pálmadóttir og Ómar Bragi Stefánsson.

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarzsem ritaði fundargerð.

Forföll: Orri V. Hlöðversson og Pálmi Haraldsson

Fundargögn:
➢ Fundargerð stjórnarfundar 2285 og fundargerðir aukafunda 11. og 30. nóvember.
➢ Tillaga að breytingu á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, bikarkeppnir
➢ Tillaga að breytingu á reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga
➢ Erindi frá Mennta-og barnamálaráðuneyti – ósk um tilefningu á fulltrúa í stjórn ÍG
➢ Minnisblað til stjórnar KSÍ varðandi úttektarnefnd ÍSÍ
➢ Gögn varðandi mögulegt bann EB á gúmmíkurli á gervigrasvöllum
➢ Minnisblað varðandi ungmennaþing KSÍ
➢ Samningur við fulltrúa landsliðs
➢ Minnisblað um endurskoðun siðareglna KSÍ og hegðunarviðmiða
➢ Minnisblað varðandi viðbragðsáætlun
➢ Minnisblað um fræðslu til hópa innan KSÍ
➢ Niðurstaða starfshóps um ferðaþátttökugjald 2023-2025
➢ Gögn varðandi ársþing KSÍ

1. Fundargerð síðasta fundar (2285) hefur þegar verið undirrituð með rafrænum hætti, sem og
fundargerðir frá aukafundum stjórnar sem fram fóru 11. og 30. nóvember.

2. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar og fréttir frá ÍTF.
    a. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar:
        ✓ Dómaranefnd 14. nóvember 2022
        ✓ Mannvirkjanefnd 23. nóvember 2022
        ✓ Fjárhagsnefnd 5. desember 2022
    b. Dagskrárliðnum fréttir frá ÍTF var frestað vegna forfalla Orra V. Hlöðverssonar.

3. Lög og reglugerðir.
    a. Á dagskrár fundar var tillaga til breytinga á reglugerð um knattspyrnumót – ákvæði um
bikarkeppni sbr. fyrri bókun stjórnar. Umræðu og afgreiðslu var frestað.
    b. Á dagskrár fundar var tillaga til breytinga á reglugerð um knattspyrnuleikvanga – ákvæði
um flóðlýsingu. Umræðu og afgreiðslu var frestað.

4. Verkefni milli funda.
    a. Stjórn KSÍ samþykkti að tilnefna Vöndu Sigurgeirsdóttur formann KSÍ og Sigfús Ásgeir Kárason varaformann í stjórn ÍG. Framkvæmdastjóra var falið að ganga frá tilnefningunni.
    b. Framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, upplýsti stjórn að umsókn í Afrekssjóð ÍSÍ hafi verið skilað.
    c. Rætt um uppgjör við ÍSÍ vegna skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ. Stjórn samþykkti að fela Sigfúsi Á. Kárasyni varaformanni og Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra að ræða við ÍSÍ um lyktir málsins.
    d. Rætt um áður framkomna beiðni HKK um skipan starfshóps um jafnréttismál. Framkvæmdastjóri KSÍ greindi frá fundi sem hún og Haukur Hinriksson lögfræðingur KSÍ áttu með HKK um málið. Vinna þarf frekar í málinu áður en unnt er að skipa í starfshópinn.
    e. Rætt um mögulegt bann EB á gúmmíkurli á gervigrasvöllum, samanber umræðu í fyrri stjórn um málið. Mannvirkjanefnd með Þorberg Karlsson í fararbroddi leiðir málið fyrir hönd sambandsins.
    f. Fréttir fluttar af fyrsta ungmennaþingi KSÍ. Stjórn KSÍ samþykkti að skipa starfshóp um framhaldið og fól formanni og framkvæmdastjóra að flytja málið í ferli.
    g. Rætt um málefni FIFA. Stjórn KSÍ lýsir yfir vonbrigðum með tilteknar ákvarðanir Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA), sem hafa verið teknar í tengslum við Heimsmeistarakeppni karlalandsliða í Katar. Í ljósi þessa hefur stjórn KSÍ ákveðið að styðja ekki við framboð Gianni Infantino til forseta FIFA.
    h. Framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, fór yfir þær tillögur sem starfshópur I lagði fram sl. haust.
        ✓ Lagður var fram samningur við leikmenn. Formönnum landsliðsnefnda (A/U21 karla og A/U23 kvenna) falið að ræða við leikmannaráð. Samningurinn verður síðan lagður aftur til stjórnar til endanlegrar staðfestingar.
        ✓ Lagt var fram minnisblað um endurskoðun siðareglna KSÍ og hegðunarviðmiða. Gert er ráð fyrir að vinnu hópsins verði lokið um vor/sumar 2023.
        ✓ Rætt um nýútkomna viðbragðsáætlun Samskiptaráðgjafa íþrótta og æskulýðsstarfs. Stjórn KSÍ lýsir yfir ánægju með útgáfuna sem færir aðilum innan íþrótta- og æskulýðsfélaga og íþróttasamtaka áætlun vegna atvika og áfalla sem upp geta komið í slíku starfi.
Stjórn KSÍ hefur fullan hug á að starfað sé eftir nýrri áætlun og samþykkir að unnið sé eftir henni í starfi KSÍ.
Stjórn KSÍ er þeirrar skoðunar að ákjósanlegast sé að viðbrögð innan íþróttahreyfingarinnar séu eins samræmd og kostur er á. Rætt um að stjórn KSÍ flytji þingsályktunartillögu á komandi ársþingi þess efnis, svo og brýningu til aðilarfélaga um aðrar tillögur sem tengjast félögum og fram koma í tillögu starfshóps I.
        ✓ Framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, lagði fram minnisblað um fræðslu til ýmissa aðila innan KSÍ, en þegar hafa til dæmis stjórn, starfsmenn og dómarar fengið fræðslu.

5. Fjármál
    a. Borghildur Sigurðardóttir formaður fjárhags-og endurskoðunarnefndar og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynntu 9 mánaða uppgjör og spá um lokaniðurstöðu ársins. Samþykkt var tillaga Vöndu Sigurgeirsdóttur formanns að greiða starfsmönnum kr. 200.000.- launauppbót vegna EM álags í samræmi við fyrri fordæmi og þegar ráðrúm er til.
    b. Kynnt voru fyrstu drög að fjárhagsáætlun 2023.
    c. Sigfús Ásgeir Kárason formaður starfshóps um ferðaþátttökugjald kynnti niðurstöðu
hópsins. Stjórn var jákvæð gagnvart tillögu hópsins en telur skynsamlegt að fresta
afgreiðslu málsins til næsta stjórnarfundar þar sem áhersla verður lögð á fjármál og gerð
fjárhagsáætlunar.

6. Ársþing
    a. Rætt um undirbúning fyrir ársþingið á Ísafirði.
    b. Rætt um þingforsta og þingritara og framkvæmdastjóra KSÍ gefið umboð til að flytja málið í ferli gagnvart ársþingi.
    c. Í samræmi við grein 9.9 í lögum KSÍ samþykkt stjórn KSÍ að bjóða tveimur fulltrúum frá ÍTF, Leikmannasamtökum Íslands (LSÍ) og Hagsmunasamtökum knattspyrnukvenna (HKK) þingsetu og veita þeim heimild til að ávarpa þingið. Þá samþykkti stjórn að gefa framkvæmdastjóra KSÍ umboð til að bjóða öðrum þingsetu ef þurfa þykir.
    d. Rætt um dagskrá málþings og tímasetningu þess.

7. Mótamál
    a. Dagskrálið 7.a, dómaramál var frestað.
    b. Mótamál
        ✓ KSÍ ræddi ítarlega um tillögu mótanefndar að taka upp lotukerfi í keppni 2. flokks karla A-liða og taldi rétt að boða til aukafundar stjórnar til að fá frekari kynningu á málinu. Afgreiðslu málsins var því frestað.
    ✓ Unnið er að því að kanna vilja aðildarfélaga KSÍ varðandi mótafyrirkomulag í 2. flokki kvenna.
    ✓ Stjórn gerði ekki athugasemd um tillögu mótanefndar um breytingu á keppnisfyrirkomulagi í 4. flokk karla en með þessu er verið að taka upp sama keppnisfyrirkomulag og er í 4. flokki kvenna. Þessi breyting kallar ekki á breytingu á reglugerðum.

8. Landsliðsmál
    a. Dagskrárlið frestað.

9. Önnur mál
    a. Rætt var um skipan í samninga-og félagskiptanefnd en Guðný Petrína Þórðardóttir hefur sagt sig úr nefndinni vegna starfa sinna fyrir Keflavík. Samþykkt var að skipa Kolbrúnu Arnardóttur í hennar stað. Sú skipan gildir til næsta ársþings.
    b. Fulltrúar landshluta fluttu fréttir úr landsfjórðungum.

Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 19:45.