Vel heppnuð vinnustofa um fótbolta fyrir eldri iðkendur
Laugardaginn 5. nóvember hélt KSÍ vinnustofu þar sem fjallað var um fótbolta fyrir eldri iðkendur. Þar voru flutt fjögur erindi. Rúnar Már Sverrisson hjá Þrótti Reykjavík kynnti göngufótbolta, Jóna Hildur Bjarnadóttir hjá Fram kynnti Fótbolta fitness, Ágúst Tómasson og Ellert Kristján Stefánsson hjá Þrótti R. töluðu um Old boys og Eva Rós Vilhjálmsdóttir hjá liðinu Drottningarnar talaði um Old girls.
Að erindum loknum voru settar upp vinnustofur þar sem nokkrir umræðupunktar voru teknir fyrir, þar á meðal:
• Möguleikar hjá mínu félagi?
• Hvernig sannfærum við stjórnendur um hag þess að félagið bjóði upp á fótbolta fyrir eldri leikmenn?
• Hvaða kosti sjáið þið fyrir ykkur hjá ykkar félagi?
• Hvað gæti komið í veg fyrir að þessu yrði hrint af stað hjá þínu félagi?
• Er félagið með aðstöðu?
• Hverju er fólk á þessum aldri að leitast eftir?
Helstu niðurstöður eru þessar:
Hvað getur KSÍ gert?
• Stofna undirsíðu á ksi.is um eldri bolta.
• Setja af stað vinnu í að stofna Íslandsmót fyrir old girls.
• Búa til kynningarmyndband fyrir göngufótbolta og fótboltafitness til að kveikja áhugann.
• “Umbunað” félögum sem bjóða upp á fótbolta fyrir eldri iðkendur.
• Endurskoða aldursskiptingu í Íslandsmótum fyrir eldri iðkendur.
• Heimila þátttöku liða sem eru ekki hefðbundin lið í Íslandsmóti eldri flokka, t.d. Drottningarnar.
Hvað geta félögin gert og hvað “græða” þau?
• Komið fótbolta fyrir eldri iðkendur inn í almenningsíþróttadeild félaganna.
• Meðhöndlað iðkendur í eldri fótbolta eins og yngri iðkendur. Láta þau borga æfingagjöld og veita þeim afnot af svæðinu sínu án þess að þurfa að borga leigu til sveitarfélagsins.
• Félögin geta boðið upp á göngufótbolta/fótboltafitness/eldri bolta fyrir eldra fólk, sem er farið að minnka við sig í vinnu eða hætt að vinna, fyrir hádegi þegar vellirnir eru ekki í notkun. Þannig geta félögin verið mikilvægur partur í lífi eldri borgara með því að gefa þeim tækifæri til að hittast, hreyfa sig og fá sér svo t.d. kaffi saman eftir æfingu.
• Að hafa virka deild fyrir eldri bolta getur aðstoðað leikmenn sem eru að hætta sínum ferli sem leikmenn í meistaraflokki. Þannig geta leikmennirnir haldið tengingu við félagið sitt og haldið áfram að gefa af sér til þess. Það er mikill auður í “fyrrverandi” leikmönnum og hagnast bæði þeir og félagið á því að þeir séu áfram virkir félagsmenn.
• Tryggja fjármagn til að virkjað leiðtoga til að halda utan um æfingarnar. Aftur á móti þarf að vera öruggt að félagið grípi hópinn ef leiðtoginn hættir.
• Félögin fá góðvild frá nærsamfélagi sínu.
Hvað “græðir” samfélagið?
• Bætt andleg og líkamleg heilsa eldri borgara.
• Færri fjarvistir úr vinnu.
• Minni lyfjanotkun.
KSÍ hvetur aðildarfélög sín til að skoða möguleikana á fótbolta, af einhverju tagi, fyrir eldri iðkendur.
Nánari upplýsingar veitir Sóley Guðmundsdóttir í gegnum netfangið soley@ksi.is.